Í síðustu sveitarstjórnarkosningum vorum við Mosfellingar heppnir. Hér buðu sig fram vaskir bæjarbúar sem vildu sjá lýðræðislegri og opnari stjórnun bæjarins og auka þannig möguleika á góðu, sanngjörnu samfélagi. Já,við vorum verulega heppin, forystufólk Íbúahreyfingarinnar gerði það sem þau lofuðu. Þau spurðu óþægilegra spurninga, komu með fínar tillögur um hin ýmsu þjóðþrifamál og gerðu pólitíkina skemmtilega inn á milli, t.d. með tillögu sinni um píkusafn og — haldið ykkur fast — þau héldu þetta út allt kjörtímabilið! Það er meira en ég get sagt. Ég hélt út þrjú ár af fjórum í umhverfisnefnd fyrir Íbúahreyfinguna.
Ég var ekki í Íbúahreyfingunni en skömmu eftir kosningar auglýstu forsvarsmenn hennar eftir fagfólki í nefndarstörf, þ.e. bæjarbúum með þekkingu á viðkomandi nefndarsviði. Þessi nýbreytni hreyfingarinnar er snjöll og gerir miklar framfarir mögulegar. Mig þyrsti í umbætur í umhverfismálum til hagsbóta fyrir fólkið í sveitinni minni og fólkið sem tekur við af okkur — því tilhögun umhverfismála hefur iðulega áhrif til framtíðar — svo ég sló til. Margsannað er að lýðræði er besta form stjórnunar samfélaga sem fundist hefur fram til þessa og verður best þegar sem flestir taka þátt við mótun stefnu og útfærslu þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á. Jafnframt er mikilvægt að fagfólk komi að ákvörðunum svo tryggja megi gæði og langtímahagsmuni bæjarins.
Skemmst er frá því að segja að fagleg nálgun og umbótatillögur um mikilvæg málefni áttu ekki upp á pallborðið í umhverfisnefnd. T.d. var greinargerð, sem tók talsverðan tíma að vinna og innihélt álit starfandi sérfræðinga á viðkomandi sviði, um framtíðar aðalskipulag ekki vel tekið og þurfti að sæta lagi til að hún næði fram til næsta stjórnstigs. Því miður sýnir reynsla mín að umhverfisnefnd er/var helst ætlað að vera smá „almannatengsla-stassjón“ (umhverfisverðlaun, opnunarviðburðir o.s.frv.) og örlítill grænþvottur (t.d.umsagnir til bæjarstjórnar um takmarkaða þætti umhverfismálanna). Henni er ekki ætlað að hafa áhrif á stefnumótun eða þróa umhverfismálarekstur. Svona málefnavinnsla er auðvitað óskynsamleg, ólýðræðisleg og óhagkvæm. Þessi vinna reyndi meira á þolrifin en nokkur önnur sem ég hef innt af hendi.
Tíminn er auðlind, náttúran er lífsnauðsynleg auðlind og gríðarlega mikilvægt að hún sé nýtt á sjálfbæran hátt.
Elsku grannar. Það skiptir máli hvernig bænum er stjórnað, hvernig farið er með náttúruna, börnin í skólunum, göturnar þurfa að vera góðar, menning og listir eru nauðsyn, fjármunum þarf að vera vel varið og svo má lengi halda áfram. Mikilvægt er að breyta pólitík bæjarins úr klíkufélagi í mann- og umhverfisvæn stjórnmál. Eflaust sárnar einhverjum þessi lýsing mín. Auðvitað eru ekki allir í klíkunni og ég hef ekki innsýn í pólitíkina nema að hluta. En aukið lýðræði er fær leið til að gera bæinn betri. Skoðið stöðu málefna sem ykkur eru mikilvæg (t.d. má hlusta á bæjarstjórnarfundi). Hvaða markmið skal setja? Eru álitlegir stjórnendur til staðar? Ef ekki er nauðsynlegt að ganga sjálfur í málin. Gerum bæinn okkar betri og búum í haginn fyrir komandi kynslóðir. Íbúahreyfingin er besta leiðin til þess.
Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014.