Í bæjarstjórn stendur nú yfir barátta um gagnsæi. Liðin sem takast á eru annarsvegar Íbúahreyfingin, sem með athöfnum og orðum berst fyrir rétti Mosfellinga til upplýsinga frá eigin bæjarfélagi og hins vegar Sjálfstæðisflokkur, VG og Samfylkingin, sem við skulum kalla þríflokkinn hér og berst fyrir því að leyna upplýsingum.
Í hvoru liðinu ert þú?
Það kann að vefjast fyrir fólki að þríflokkurinn sé í raun að berjast fyrir ógagnsæi því allir bæjarstjórnarmenn hans hafa forðast ótal tilraunir Íbúahreyfingarinnar til þess að fá fram skoðanir þeirra með atkvæðagreiðslum. Á síðasta bæjarstjórnarfundi töldu þeir sig ekki geta sinnt starfi sínu sem bæjarfulltrúar vegna þess að þeir eru ekki lögfræðingar.
Málið snýst um birtingu á afskriftum lögaðila (fyrirtækja) hjá Mosfellsbæ, þ.e. þeir sem sleppa við að greiða fyrir fengna þjónustu hjá bænum og ástæður fyrir því.
Afgreiðslan á málinu er mjög auðveld því þessar upplýsingar varða augljóslega almannahag Mosfellinga og birting upplýsinganna varða ekki við nein lög.
Vandinn er sá að þríflokkurinn neitar að skilgreina upplýsingarnar sem almannahagsmuni og með þeirri afstöðu velja þeir að standa gegn Mosfellingum.
Fjörflokkunum varð svo brugðið við að einhver skildi voga sér að birta opinberlega upplýsingar sem þeir eru augljóslega hagsmunagæslumenn fyrir að berist ekki til almennings, að þeir keyptu sér lögfræðiálit þar sem ekkert tillit er tekið til almannahagsmuna (hagsmuna sem þeir eru kosnir til þess að gæta). Í lögfræðiálitinu er lagt til að bærinn kæri fulltrúa Íbúahreyfingarinnar til saksóknara og Innanríkisráðuneytis.
Sama lögfræðistofa taldi að fyrri bæjarstjórn hefði án tvímæla brotið lög með því að setja bæinn í sjálfskuldarábyrgð fyrir kvart milljarði en lagði þó ekki til að það yrði kært.
Hafið þið séð einhverjar fréttir af afskriftum í fjölmiðlum? Jú, þær eru býsna algengar, er það ekki? Enda varða þær upplýsingar um almannahag jafnvel þó að fyrirtækið sem er að afskrifa sé hlutafélag. Enginn er dæmdur til fangelsisvistar fyrir birtinguna líkt og þríflokkurinn í Mosfellsbæ vill greinilega, í gegnum lögfræðiálitið, að verði gert við þá sem birta sambærilegar upplýsingar um Mosfellsbæ.
Það er mikilvægt að átta sig á því að bæjarfulltrúar Íbúahreyfingarinnar verða venjulegir íbúar að loknu kjörtímabili, aðrir íbúar taka við keflinu. Þeirra persónulegu hagsmunir liggja ekki í að ná endurkjöri með öllum þeim hagsmunaárekstrum sem slíkt hefur í för með sér, heldur að reyna að breyta bæjarfélaginu þannig að það þjóni sem best venjulegum íbúum. Íbúalýðræði og gagnsæi eru því grundvallaratriði.
Gott væri að fá stuðning eða gagnrýni Mosfellinga í þessari baráttu, sendið póst á ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is eða mætið í viðtalstíma 16. nóvember kl. 17:00 – 18:00 í Kjarna hjá fulltrúum Íbúahreyfingarinnar.

Pin It on Pinterest

Share This