Á íbúafundi Aftureldingar í Hlégarði í gær var dregin upp dökk mynd af ástandi mannvirkja félagsins og aðstöðu og aðbúnaði félaga. Yfirstjórn Aftureldingar var berorð og ljóst er að mælirinn er fullur!
Ástandið er verra en bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar var upplýstur um. Fundurinn í gær staðfestir þá skoðun okkar að stjórnsýsla Mosfellsbæjar sé ómarkviss og að ráðast þurfi í meiriháttar breytingar á stjórnarháttum í Mosfellsbæ. Það er ólíðandi að upplýsingar um alvarleika þessa máls skuli ekki hafa skilað sér inn á borð kjörinna fulltrúa, þrátt fyrir að framkvæmdastjóri Aftureldingar og yfirstjórn hafi ítrekað fundað með bæjarstjóra og embættismönnum.
Öll mál sem varða hagsmuni Mosfellinga og félaga sem starfa hér í þeirra þágu á að ræða opinskátt í nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Öðruvísi geta kjörnir fulltrúar ekki starfað markvisst, brugðist við og gripið til aðgerða. Það hefur sjaldan verið augljósara en á fundinum í gær hve upplýsingagjöf innan stjórnkerfis Mosfellsbæjar er ábótavant. Í þessu tilviki hefur fjárhagsleg afkoma Aftureldingar skaðast og íþróttaiðkendur beðið heilsutjón á meðan beðið er eftir aðgerðum.
Íbúahreyfingin og Píratar leggja áherslu á að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri á næsta kjörtímabili sem tengir starfsmenn bæjarins og kjörna fulltrúa á faglegan hátt svo stjórnkerfi Mosfellsbæjar þjóni íbúum betur. Markmiðið er að tryggja að hagsmunir og velferð Mosfellinga séu höfð að leiðarljósi í allri stjórnsýslu. Upplýsingum sé miðlað og reglum framfylgt svo kjörnir fulltrúar nái að sinna hlutverki sínu gagnvart íbúum sveitarfélagins.
Ungmennafélagið Afturelding er stærsti félagslegi vettvangur barna- og foreldrastarfs í Mosfellsbæ og skylda okkar að standa vörð um það.