Í byrjun febrúar 2011 barst bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ lögfræðiálit frá LEX sem sveitarfélagið lét gera vegna fyrirgrennslan Íbúahreyfingarinnar á lögmæti sjálfskuldarábyrgðar Mosfellsbæjar á láni Landsbanka til Helgafellsbygginga upp á 246 milljónir. Í innihaldi álitsins felst viðurkenning á því sjónarmiði sem Íbúahreyfingin hefur haldið á lofti, það er að umrædd sjálfskuldarábyrgð stangist á við sveitarstjórnarlög.
Í minnisblaði bæjarstjóra þar sem brugðist er við álitinu er því borið við að bæjaryfirvöld hafi talið að gerningar þeir sem til umfjöllunar eru í álitinu falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélagsins, en framkvæmdastjóri bæjarfélags má skv. sveitastjórnarlögum ábyrgjast fyrir hönd bæjarfélagsins slík minniháttar viðskipti. Íbúahreyfingin vísar þeirri túlkun á bug enda um mjög háa fjárhæð að ræða og viðskipti sem tæpast eiga sér hliðstæðu í bókhaldi bæjarfélagsins. Þá ber meðferð málsins þess merki að ekki hafi verið litið á afgreiðslu þess sem daglegan rekstur. Málið var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur sveitarfélagsins. Þá skrifar prókúruhafi bæjarins undir ábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Þegar ráðist var í uppbyggingu íbúðahverfa samkvæmt „nýrri hugmyndafræði“ Sjálfstæðisflokksins um einkarekna samfélagsuppbyggingu var því heitið að enginn kostnaður félli á íbúa Mosfellsbæjar, eða eins og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, orðaði það í blaðagrein haustið 2005:„Ljóst er að kostnaður við uppbyggingu leggst ekki á þá íbúa sem fyrir eru í bæjarfélaginu heldur stendur framkvæmdin sjálf undir þeim kostnaði. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir Mosfellinga.“
Undirritun sjálfskuldarábyrgðarinnar virðist því vera hvoru tveggja pólitískt skipbrot einkavæðingarstefnunnar og lögbrot. Í ljósi þess trúnaðarbrests sem orðinn er milli Mosfellinga og þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á sjálfskuldarábyrgðinni fór Íbúahreyfingin fram á afsögn umræddra kjörinna fulltrúa á 552. fundi bæjarstjórnar í gær. Þá vill Íbúahreyfingin að málinu verði vísað til úrskurðar Innanríkisráðuneytisins.

Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
S: 897 9858
www.ibuahreyfingin.is
PS. Um Helgafellsbyggingar og Mosfellsbæ
Hjálagt er lögfræðiálit LEX.

Pin It on Pinterest

Share This