Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur beðið um álit Persónuverndar á gildissviði persónuverndarlaga hvað varðar upplýsingar um afskriftir á lögboðnum gjöldum lögaðila til sveitarfélags og hvort að birting á slíkum upplýsingum falli undir persónuverndarlög.
Undanfari málsins er sá að þann mars á þessu ári bæjarráð og bæjarstjórn afskriftir á gjöldum til sveitarfélagsins. Íbúahreyfingin lagði þá til að „allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir lögaðila verði birtar opinberlega ásamt ástæðum fyrir því hvers vegna ekki sé talið mögulegt að innheimta kröfuna. Einnig, að allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir einstaklinga þar sem félagslegar aðstæður eru ekki ástæða afskrifta séu birtar opinberlega.“
Ákveðið var að fela framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs að skrifa umsögn um tillöguna sem síðan færi til bæjarráðs.
Íbúahreyfingin grennslaðist fyrir um afdrif tillögunnar í maí og ágúst en fékk engin svör og ákvað í september að birta upplýsingar um afskriftir til lögaðila í dreifiriti sem borðið var í öll hús í Mosfellsbæ.
Eftir nokkuð skrautlega stjórnsýslumeðferð á málinu var samþykkt með 6 af 7 atkvæðum í bæjarstjórn að „fram fari lögfræðileg skoðun á því hvort brotið hafi verið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga þegar Íbúahreyfingin birti upplýsingar um afskriftir til lögaðila í Mosfellsbæ í dreifibréfi til íbúa Mosfellsbæjar í september sl.“
18. október 2011 barst svo lögfræðiálit LEX unnið af Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Víði Smára Petersen þar sem niðurstaðan er eftirfarandi:
„- Upplýsingar um afskriftir lögaðila hjá sveitarfélögum heyra undir þagnarskyldu sveitarstjórnarmanna. Óheimilt var því fyrir sveitarstjórnarmann að birta upplýsingarnar opinberlega.
– Birting umræddra upplýsinga var ekki í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
– Brot sveitarstjórnarmanns gegn þagnarskyldu sinni er refsiverður verknaður, skv. 136. gr. hgl. eða 230. gr. hgl. Rétt væri að Mosfellsbær upplýsti innanríkisráðherra um háttsemi umrædds sveitarstjórnarmanns og jafnvel sendi erindi til ríkissaksóknara.
– Brot á lögum nr. 77/2000 geta varðað sektum, fangelsi eða skaðabótaábyrgð. Mosfellsbær ber aftur á móti ekki ábyrgð á umræddu broti heldur aðeins sá sem birti upplýsingarnar.
– Mosfellsbær gæti þó borið almenna skaðabótaábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð ef einhver umræddra lögaðila hefur orðið fyrir tjóni vegna birtingarinnar. Ýmis sjónarmið mæla þó gegn því að reglan um vinnuveitandaábyrgð eigi við.
– Mosfellsbæ er óheimilt að birta upplýsingar um afskriftir lögaðila og einstaklinga hjá sveitarfélaginu, án samþykkis viðkomandi aðila.“

Í áliti LEX er komist að þeirri niðurstöðu að birtingin sé brot á persónuverndarlögum en Íbúahreyfingin telur þá túlkun á lögunum vægast sagt umdeilanlega þar sem skýr greinarmunur er gerður í íslenskum lögum á persónu og lögaðila.
Íbúahreyfingin ákvað því að biðja Persónuvernd um álit á gildissviði persónuverndarlaga með tilliti til upplýsinganna sem Íbúahreyfingin birti.
Fyrirspurnin til Persónuverndar er hér að neðan og lögfræðiálit LEX, blað Íbúahreyfingarinnar og blað yfir feril málsins fylgir í viðhengi. Einnig bendum við á greinar um málið á bloggi Íbúahreyfingarinnar http:ibuahreyfingin.is og bloggi Þórðar Björns Sigurðssonar http://blog.eyjan.is/tbs/.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Jón Jósef Bjarnason
GSM: 897-9858

“Ágæti viðtakandi.

Í september síðastliðnum birti Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ lista með upplýsingum um afskriftir Mosfellsbæjar á skuldum lögaðila, sem fylgir hér í viðhengi. Til að gera langa sögu stutta var meirihluti bæjarstjórnar ósáttur við birtingu upplýsinganna og pantaði lögfræðiálit sem barst þann 18. október.
Í beiðni bæjarstjórnar um álitið er m.a. beðið um álit með tilliti til „laga sem kveðja á um vernd persónuupplýsinga“ þrátt fyrir að Íbúahreyfingin telji sig alls ekki hafa birt neinar persónuupplýsingar. Hér er bókun bæjarstjórnar:
„Bæjarstjórn óskar eftir því við lögmenn bæjarins að fram fari lögfræðileg skoðun á því hvort brotið hafi verið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga þegar Íbúahreyfingin birti upplýsingar um afskriftir til lögaðila í Mosfellsbæ í dreifibréfi til íbúa Mosfellsbæjar í september sl.”
Í álitinu, sem fylgir í viðhengi, er komist svo að þeirri niðurstöðu m.a. að brotið hafi verið gegn persónuverndarlögum með birtingunni.
„Birting umræddra upplýsinga var ekki í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“
Sá kafli álitsins sem leiðir til þessarar niðurstöðu er eftirfarandi kafli:
“Fjárhagsupplýsingar um einstaklinga og lögaðila fela í sér persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (prl.), sbr. 1. tölul. 2. gr. og 3. mgr. 6. gr. laganna. Dreifing slíkra persónuupplýsinga í formi opinberrar birtingar felur ótvírætt í sér vinnslu þeirra í skilningi 2. tölul. 2. gr. prl., sbr. dóm Hæstaréttar frá 6. desember 2007 í máli nr. 201/2007.
Veiting og vinnsla slíkra persónuupplýsinga er almennt bönnuð nema með leyfi þess sem í hlut á, sbr. 7. tölul. 2. gr. prl., eða ef sá sem birtir upplýsingarnar hefur heimild til þess samkvæmt 8. gr. laganna. Ekki verður séð að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt í málinu. Í það minnsta er ljóst að birting svo ítarlegra og sérgreindra fjárhagsupplýsinga lögaðila var ekki í samræmi við þau meðalhófssjónarmið sem lögfest eru í 7. gr. prl.
Loks má geta þess að sérstakt starfsleyfi þarf til þess að miðla upplýsingum til þriðja aðila um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust sem sett var með stoð í 2. mgr. 45. gr. prl.
Af þeim sökum er ljóst að opinber birting um afskriftir skulda lögaðila, án þeirra leyfis, felur í sér brot gegn fyrrgreindum ákvæðum prl.”
Höfundar álitsins telja sem sagt að Íbúahreyfingin hafi, í fyrsta lagi gerst brotleg við 3. mgr. 6. gr., 7. gr. og 2. gr. laganna með því að birta upplýsingarnar og einnig er bent á brot á eftirfarandi greinum persónuverndarlaga:
“Heimilt er þeim að kvarta til Persónuverndar sem telur að ekki hafi verið unnið með persónuupplýsingar hans í samræmi við prl., sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Sveitarstjórn Mosfellsbæjar yrði ekki heimilt að kvarta til Persónuverndar í þessu máli, enda hefur hún ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Ákveði einhver þeirra lögaðila sem birtar voru upplýsingar um að kvarta til Persónuverndar getur ábyrgðaraðili þurft að bæta þeim sem misgert var við það fjárhagslega tjón sem hann hefur orðið fyrir af þeim völdum, sbr. 43. gr. prl. Umræddur ábyrgðaraðili gæti einnig þurft að lúta fésektum eða fangelsi allt að þremur árum, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna.”
Við viljum því biðja um álit Persónuverndar á gildissviði laganna hvað varðar upplýsingar um afskriftir á lögboðnum gjöldum lögaðila til sveitarfélags og hvort að birting á slíkum upplýsingum falli undir persónuverndarlög.

Jón Jósef Bjarnason
GSM: 897-9858
Netfang: jonb@it-cons.com”

Hér má sjá feril málsins í stjórnsýlsunni, lögfræðiálit LEX og blað Íbúahreyfingarinnar þar sem upplýsingarnar um afskriftirnar voru birtar:
Blad_IbuahrSept11
Mosfellsbær – Minnisblað um brot á trúnaðarskyldu
Ferli birtingarmálsins

Pin It on Pinterest

Share This