Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar átelur þau vinnubrögð fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði Mosfellsbæjar harðlega að hafa í sumarfríi bæjarstjórnar úthlutað óþekktum aðilum í trássi við eðlilega verkferla samtals hundrað og tuttugu þúsund m2 af landi Mosfellsbæjar til eignar undir þrjátíu þúsund m2 einkasjúkrahús og -hótel með þyrlupalli.
Handhöfum leyfist að veðsetja lóðirnar að fengnu óskilgreindu leyfi Mosfellsbæjar og líka kaupréttinn.
Engin gögn fylgdu málinu sem bentu til forvinnu af neinu tagi; engin áreiðanleikakönnun var gerð á því hvort um væri að ræða aðila sem væru traustsins verðir; engin greinargerð viðskiptabanka um fjárhagslega burði þeirra til að ráðast í verkefni af stærðargráðunni 50 milljarðar króna; engir útreikningar á arðsemi verkefnisins fyrir Mosfellinga; engar upplýsingar um umhverfisáhrif; ekkert samráð við heilbrigðisyfirvöld, heldur ekki íbúa og engin fagleg álit stjórnsýslustofnana. Lýðræðislegum stjórnsýsluþætti undirbúnings var hreinlega sleppt.
Við lestur samningsins vaknar grunur um að þessir aðilar hafi ekki fjármagn til að greiða gatnagerðargjöld nema að þeir fái leyfi til að veðsetja landið. Landið er líklega það verðmikið að þeir geta líka tekið lán út á það til að fjármagna kostnað við að gera það byggingarhæft. Að því loknu geta þeir veðsett kaupréttinn.
Samningurinn bendir til þess að þetta séu aðilar með hafa hugmynd en lítið sem ekkert eigið fé. Það má teljast með öllu óábyrgt af bæjarráði að afhenda óþekktum, erlendum aðilum verðmætar eignir sveitarfélagsins. Sá möguleiki er raunverulegur að landið komist í hendur þriðja aðila í gegnum veðsetningar og að sá aðili vilji síðan koma landinu í verð fyrir sem mestan pening, án tillits til hagsmuna sveitarfélagsins. Það gengur þvert á stefnu sveitarfélaga að selja land sem þau eiga.
Þessi samningur verður ekki skilinn öðruvísi en sem atvinnuþróunaraðstoð Mosfellsbæjar við aðila sem bæjarráð veit ekki hverjir eru og hafa ekki sýnt fram á að hafi neitt eigið fé, hvað þá trúverðugleika eða burði til að standa í framkvæmdum upp á 50 milljarða. Í því sambandi vekur athygli að þeir þurfa ekki að framvísa viðskiptaáætlun fyrr en 1. desember 2017.
Hér er um að ræða dýrmætt land í eigu Mosfellsbæjar sem látið er af hendi gegn vægu verði og fyrir starfsemi sem gengur þvert á vilja þjóðarinnar og stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum.

Bókunin var gerð á 676. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 17. ágúst 2016.

Sigrún H Pálsdóttir
bæjarfulltrúi
S. 866 9376

Pin It on Pinterest

Share This