Tillaga um fjölgun bæjarfulltrúa úr 9 í 11 var á dagskrá bæjarráðs á fimmtudag 15. mars. Á síðasta ári fjölgaði íbúum í Mosfellsbæ um ein 8% og nálgast íbúafjöldinn nú ellefu þúsund. Lög gera ráð fyrir að í bæjarfélögum með yfir tíuþúsund íbúa sé fjöldi bæjarfulltrúa 11-15. Fjölgun bæjarfulltrúa snýst um að efla lýðræðið og er það markmið tillögunnar og reyndar laganna líka.
Fundum bæjarstjórnar er streymt á Youtube og þeir sem vilja hlusta á umræður miðvikudaginn 21. mars kl. 16.30 finna fundinn þar en hann er nr. 713.
En hér erindið:
Undirrituð óskar fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar eftir umræðu í bæjarráði um fjölgun bæjarfulltrúa. Íbúar Mosfellsbæjar eru að nálgast 11.000 og gefur stórstíg fjölgun síðustu ára tilefni til að ákveða hvort ekki sé rétt að fjölga bæjarfulltrúum í upphafi næsta kjörtímabils 2018 til 2022 til samræmis við það sem gert er ráð fyrir í lögum. Í byrjun þessa kjörtímabils var bæjarfulltrúum fjölgað í 9. Svigrúmið var þó ekki fullnýtt, sbr. tillögu hér að neðan.
Sveitarstjórnarstigið er lýðræðislegur vettvangur og er kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum ætlað að endurspegla vilja íbúa. Af fjölgun íbúa leiðir því fjölgun bæjarfulltrúa og um leið styrking lýðræðis.
Tillagan sem óskast rædd er eftirfarandi:
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að bæjarfulltrúum verði fjölgað í 11 frá og með sveitarstjórnarkosningum 2018. Heimild í lögum um fjölgun sveitarstjórnarfulltrúa hefur ekki verið nýtt til fulls en skv. 11. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er sveitarfélögum með 2.000 til 9.999 íbúa heimilt að hafa allt að 11 sveitarstjórnarfulltrúa. Sveitarfélögum með fleiri en 10.000 íbúa er heimilt að hafa 11-15 sveitarstjórnarfulltrúa.
Tillaga Íbúahreyfingarinnar “er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna.”
Sigrún H Pálsdóttir
bæjarfulltrúi
S. 866 9376