kvennaathvarfÁ síðasta fundi fjölskyldunefndar var ákveðið að hækka árlegan styrk Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins úr 60 þúsund kr. í 100 þúsund. Hækkunin lét vel í eyrum þangað til að Íbúahreyfingin fór að grafast nánar fyrir um styrkveitingar sveitarfélaga í nágrenninu.

Í ársskýrslu Kvennaathvarfsins 2013 er listi yfir framlög nokkurra sveitarfélaga. Reykjavík greiddi rúmar 11 milljónir, Kópavogur 800 þúsund, Garðabær 400 þúsund, Hafnarfjörður 450 þúsund, Akranes 250 þúsund, Hveragerði 120 þúsund o.s.frv.

Eins og sjá má kemur þessi samanburður afar illa út fyrir Mosfellsbæ en hann verður enn óhagstæðari þegar horft er til þess hvaða þjónustu Kvennaathvarfið veitti fórnarlömbum heimilisofbeldis og börnum þeirra árin 2013 og 2014 en á því tímabili dvöldu samtals 11 konur úr Mosfellsbæ í Kvennaathvarfinu ásamt 10 börnum sínum. Samanlagt dvöldu konur héðan í 310 daga á þessu tímabili (allt frá 4 dögum til 106 daga) og börnin í samanlagt 426 (líka frá fjórum dögum og upp í 106 daga).

Nú er það svo að Mosfellsbær,- og það mál var líka til umfjöllunar á þessum sama fundi fjölskyldunefndar,- hefur hug á að taka þátt í átaki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins gegn heimilisofbeldi. Eitt af þeim úrræðum sem lögreglustjórinn bendir sveitarfélögunum á er einmitt Kvennaathvarfið. Til að sýna að hugur fylgdi máli hefði Íbúahreyfingunni þótt viðeigandi að hækka styrkinn þannig að hann endurspeglaði a.m.k. að Mosfellsbæ láti sér annt um þessa þjónustu Samtaka um kvennaathvarf.

Verkefni lögreglustjóraembættisins kemur ekki í stað þeirrar þjónustu sem Kvennaathvarfið veitir, heldur þvert á móti ýtir undir að þær konur sem búa við heimilisofbeldi leiti ásjár Kvennaathvarfsins. Konum hefur því fjölgað sem leita sér aðstoðar á þeim stöðum sem verkefnið er rekið.

Styrkur Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfisins er ekki í nokkru samræmi við þá þjónustu sem samtökin veita Mosfellingum. Í raun er hægt að fullyrða að Mosfellsbær sé að þiggja ölmusur frá þeim sveitarfélögum sem standa undir rekstri Kvennaathvarfsins ásamt, ríki og öðrum styrktaraðilum.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að styrkur Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins verði hækkaður úr 100 þúsund kr. í 200 þúsund árið 2015. Árlegt framlag verði síðan hækkað í 350 þúsund árið 2016. Hér er um mikið hagsmunamál kvenna og barna í Mosfellsbæ að ræða. Kvennaathvarfið veitir fórnarlömbum heimilisofbeldis hér mikla þjónustu. Núverandi styrkupphæð er ekki í neinu samræmi við þá aðstoð. Íbúahreyfingin fer því þess á leit að bæjarstjórn vísi tillögu þessari til bæjarráðs sem feli fjármálastjóra að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun þannig að lögmæti hækkunarinnar sé tryggt.

Fulltrúar D- og V-lista felldu tillöguna.

Pin It on Pinterest

Share This