Í kvöld var haldinn framboðsfundur í Hlégarði í Mosfellsbæ.  Til stóð að halda fundinn með nokkuð nýstárlegu fundarfyrikomulagi, það er að loknum framsöguræðum gæfist bæjarbúum tækifæri til spurninga og viðræðna við frambjóðendur við borð framboðanna í sölum Hlégarðs.

Vegna nokkurrar óánægju meðal íbúa með boðað fundarfyrirkomulag ákvað Birta Jóhannesdóttir, frambjóðandi Íbúahreyfingarinnar, að bera upp svo hljóðandi tillögu:

„Dagskrártillaga á framboðsfundi í Hlégarði 27. maí 2009.

Tillagan hljóðar svo:  Að lokinni seinni umferð framsöguerinda fulltrúa framboðanna verði opnað fyrir spurningar til framsögumanna úr sal undir stjórn fundarstjóra.  Öllum framboðum verði gefið færi á að bregðast við hverri spurningu.  Fyrirhugaður dagskrárliður um spurningar og svör á framboðabásum falli niður.

Flutningsmaður óskar eftir því að fundarstjóri beri tillöguna upp nú þegar og einfaldur meirihluti viðstaddra ráði.

Rökstuðningur:  Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2010 er öllum framboðum tíðrætt um íbúalýðræði.  Nú eru íbúar saman komnir til að ræða málin og standi vilji meirihluta viðstaddra íbúa til breytts fundarfyrirkomulags ber að verða við því.“

Því miður fór svo fyrir tillögunni að fundarstjóri neitaði að bera hana undir fundinn vegna andmæla fulltrúa annara framboða.  Af þessu fæst ekki annað ráðið en að lýðræðisást þeirra sé fyrst og fremst í orði en ekki á borði.

Pin It on Pinterest

Share This