öndÍ byrjun desember samþykkti meirihluti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar fjárhagsáætlun næsta árs. Ljóst er að fjárhagurinn er knappur og skuldir sveitarfélagins yfir 120% af heildartekjum og því ekki úr miklu að moða en samt. Þegar staðan er erfið skiptir öllu að forgangsraða eftir samfélagslegu vægi verkefna og láta gæluverkefnin bíða.  Í kjölfar heimsókna bæjarráðs í fyrirtæki og stofnanir bæjarins lagði Íbúahreyfingin því fram breytingatillögur sem ganga út á verkefni sem þarf að fara í og þjóna hagsmunum heildarinnar.

Bæjarmálahópur Íbúahreyfingarinnar ákvað í upphafi að taka  mið af því sem við yrðum áskynja í heimsóknum og vissum í gegnum nefndarstarf að þarfnaðist úrbóta. Tillögur okkar eru því helgaðar innviðum sveitarfélagsins frekar en einstöku áhugamálum bæjarbúa sem betur fer á að styrkja þegar árferði er gott.

Verkefnið sem Íbúahreyfingin telur að sé mest aðkallandi núna er að byggja mötuneyti við Varmárskóla. Í skólanum eru á áttunda hundrað nemendur og borða um sexhundruð og sextíu krakkar í mötuneytinu. Báðar deildir skólans borða í eldri deild. Rýmið undir stiganum þar sem borðað er er lítið og gluggalaust og húsgögn fátækleg og vart við hæfi hávaxnari nemenda. Krakkar í yngri deild hlaupa á milli bygginga í mat og hefur hvert barn um sextán mínútur til að standa í biðröð, borða og ganga frá eftir sig. Hamagangurinn er því mikill og ekkert svigrúm til að fylgjast með því hvort börnin borða eða ekki.

Til hliðar við mötuneytið eru kennslustofur fyrir verkmenntagreinar. Þar fer fram kennsla á meðan nemendur borða. Hávaðinn er ærandi og truflar kennslu. Staðsetning mötuneytisins er því óheppileg.

Hvað tækjabúnað í eldhúsi áhrærir er einungis ein þvottavél til að anna sexhundruð og sextíu nemendum og aðeins þrír kæliskápar þannig að matur liggur undir skemmdum.

Ljóst er að skólastjórnendur galdra ekki fram úr erminni peninga til að taka á vandanum enda verkefni bæjarstjórnar að sjá skólanum fyrir nauðsynlegu fjármagni.

Ef marka má svör bæjarfulltrúa D-lista í umræðum um fjárhagsáætlun höfðu þeir ekki einu sinni hugleitt að stækka þyrfti mötuneytið samfara mikilli fjölgun nemenda og það eru engar áætlanir uppi um stækkun og á þeirri forsendu var tillögu Íbúahreyfingarinnar vísað frá.

Svörin staðfestu raunar það sem íbúar hafa verið að kvarta yfir. Áætlunum um  uppbyggingu skólamannvirkja er ábótavant og þær taka ekki til þeirra vandamála sem þarf að leysa bætir Íbúahreyfingin við.

Vinnubrögðin varpa ljósi á vanhugsaða forgangsröðun verkefna hjá bæjarfulltrúum D- og V-lista en samkvæmt fjárhagsáætlun á að verja á annað hundrað milljónum af almannafé í golfvelli á næstu fjórum árum. Það fer ekki á milli mála að golf er skemmtileg íþrótt en golfvellir eru ekki opnir almenningi. Sú spurning vaknar því óhjákvæmilega hvers vegna verið er að veita frjálsum félagasamtökum sem rekin eru með gróða svo háar upphæðir úr bæjarsjóði. Eru ekki flestir meðlimirnir fjárráða og jafnvel íbúar í öðrum sveitarfélögum?

Á heimasíðu Íbúahreyfingarinnar má lesa nánar um þau verkefni sem við teljum brýnni og ættu að vera framar í forgangsröðinni hjá Mosfellsbæ.

Að lokum þetta. Það segir sitt um siðferðilegt þrek stjórnmálamanna hvernig þeir umgangast opinbert fé. Segjum það upphátt!

Sigrún Pálsdóttir,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar

Pin It on Pinterest

Share This