Íbúahreyfingin sendi nýverið stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu bréf þar sem þess er óskað að SSH endurskoði samþykktir sínar með tilliti til 50. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem þeim framboðum sem náð hafa inn manni í sveitarstjórn er gert kleift að tilnefna áheyrnarfulltrúa í nefndir og ráð sveitarfélaga. Kjarninn í tillögu Íbúahreyfingarinnar er […] ósk um að SSH innleiði samskonar ákvæði í sínar samþykktir þannig að öll framboð hafi jöfn tækifæri til að láta rödd sína heyrast og síðast en ekki síst jafnan aðgang að upplýsingum um þau málefni sem verið er að vinna að á vettvangi SSH.
Bréf til stjórnar Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Ég hef áhuga á að koma á framfæri tillögu um eilitlar breytingar á samstarfsvettvangi SSH. Tildrög málsins eru þau að ég er bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ og hafa fulltrúar hennar ekki kjörgengi á vettvangi fulltrúaráðs og nefnda á vegum samtakanna, þrátt fyrir að eiga fulltrúa í bæjarstjórn. Okkur þykir það miður þar sem um er að ræða samráðsvettvang um mikilvæg málefni þeirra sveitarstjórna sem aðild eiga að honum.
Tillagan tekur til breytinga á 6. gr. Samþykktar SSH sem gæti hljóðað svo.
Framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn en ná því ekki að fá kjörinn fulltrúa í fulltrúaráð SSH eiga rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á fundum fulltrúaráðs með tillögurétt og málfrelsi.Það sama gildir um nefndir á vegum samtakanna.
Við gerð síðustu sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var, í þágu lýðræðis og til að efla þátttöku í sveitarstjórnarstarfi, innleidd ný grein þar sem kveðið er á um að framboð sem ekki hafa atkvæðamagn til að ná inn manni í nefnd á grundvelli hlutfallskosningar hafi engu að síður rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa með tillögurétt og málfrelsi í öllum nefndum. Hér er um að ræða 50. gr. laganna og hljóðar það svo:
“50. gr. Áheyrnarfulltrúar.
Hafi sveitarstjórn verið kjörin bundinni hlutfallskosningu og einhver framboðsaðili sem fulltrúa á í sveitarstjórn nær ekki kjöri í byggðarráð er fulltrúum þessa aðila heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til þátttöku í fundum nefndarinnar. Hið sama á við um fastanefndir sem falið hefur verið fullnaðarákvörðunarvald í málum. Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að sama regla gildi um aðrar fastanefndir.”
Kjarninn í tillögu Íbúahreyfingarinnar er því ósk um að SSH innleiði samskonar ákvæði í sínar samþykktir þannig að öll framboð hafi jöfn tækifæri til að láta rödd sína heyrast og síðast en ekki síst jafnan aðgang að upplýsingum um þau málefni sem verið er að vinna að á vettvangi SSH.
Ljóst er að með tilkomu landshlutasamtaka sem þessara á sér stað framsal á því pólitíska umboði sem kjósendur í hverju sveitarfélagi fyrir sig hafa veitt kjörnum fulltrúum með atkvæði sínu. Með því að útiloka lítil framboð eins og Íbúahreyfinguna frá samstarfi sveitarfélaga á vettvangi SSH er því hið lýðræðislega umboð kjósenda rýrt og meirihlutaræði stærri framboða styrkt sem vart getur talist í anda þess jafnræðis sem boðað er nýjum sveitarstjórnarlögum. Það gefur auga leið að eftir því sem fleiri koma að samstarfi á vettvangi sveitarstjórnarmála eflist lýðræðið og því til mikils að vinna.
Fulltrúaráð og nefndir á vegum SSH er helsti samstarfsvettvangur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samtökin beinlínis stofnuð til að efla samskipti og samstarf sveitarstjórnarmanna. Að framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn skuli ekki eiga þar rödd hlýtur að orka tvímælis.
Skv. lauslegum útreikningum myndi áheyrnarfulltrúum í fulltrúaráði SSH fjölga um sjö en erfitt er segja nákvæmlega til um fjöldann þar sem upplýsingar um fjölda fulltrúa í nefndum og ráðum SSH vantar á sumar heimasíður bæjarfélaganna. Sama gildir um nefndirnar.
Það er álit Íbúahreyfingarinnar að samþykktin þarfnist endurskoðunar með hliðsjón af 50. gr. sveitarstjórnarlaga og að stefna beri að því að fulltrúum allra framboða sem eiga fulltrúa í sveitarstjórnum gefist færi á að taka þátt í störfum nefnda og ráða á vettvangi SSH.
Sigrún Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ