Íbúahreyfingin hefur lagt fram tillögu um að Mosfellsbær láti af hendi lóð og/eða setji kvaðir í skipulag til að auka framboð á ódýru leiguhúsnæði fyrir ungt fólk og efnaminni. Til að tryggja viðráðanlegt leiguverð er líklegast til árangurs að Mosfellsbær leiti eftir samstarfi við byggingarsamvinnufélög sem starfa án hagnaðarmarkmiða.

Nú hefur sveitarfélagið ekki margar lóðir til ráðstöfunar í þéttbýli en útlit er fyrir að það losni brátt undan samningi frá árinu 2016 um úthlutun og sölu lóðar upp á 12 hektara við Hafravatnsveg í Reykjahverfi. Gangi það eftir mætti hugsa sér að nýta landið til að skipuleggja íbúðabyggð á einkar fjölskylduvænum stað í samstarfi við byggingarfélag á borð við Íbúðafélagið Bjarg. Sé önnur staðsetning talin heppilegri væri hugsanlegt að Mosfellsbær gerði makaskipti á landinu.

Skv. lögum um almennar íbúðir 115/2016 er sveitarfélögum heimilt að veita 12% stofnframlag til að byggja og kaupa íbúðarhúsnæði sem ætlað er leigjendum sem eru undir tekju- og eignamörkum. Sveitarfélög hafa sum hver greitt stofnframlagið í formi lóða og út á það gengur tillaga Íbúahreyfingarinnar.

Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður hafa núþegar samið við Bjarg um byggingu á fjölda leiguíbúða en félagið, sem er sjálfseignarstofnun, leitar sérstaklega eftir samstarfi við sveitarfélögin. Það sem gerir samstarf við félagið fýsilegt er að það hefur traustan bakhjarl sem er í samstarfi við aðila sem hafa reynslu af rekstri leigufélaga í Skandínavíu og víðar. Það voru stéttarfélögin ASÍ og BSRB sem stofnuðu félagið í kjölfar framangreindrar lagasetningar um almennar íbúðir.

Reykjavíkurborg er eins farið og Mosfellsbæ að hafa lítið af lóðum til ráðstöfunar í þéttbýli en borgin hefur verið að auka framboð á leiguhúsnæði fyrir ungt fólk og efnaminni, námsmenn, fatlaða  og fleiri lágtekjuhópa með því að setja kvaðir í skipulag um að fá lóðir til ráðstöfunar á nýjum skipulagsreitum til að byggja leiguíbúðir í samstarfi við íbúðafélög sem starfa án hagnaðarmarkmiða. Íbúahreyfingin sér fyrir sér að Mosfellsbær fari eins að.

Þess má geta að hér er ekki um að ræða félagslegt húsnæði, heldur félagslega aðgerð til að efla leigumarkaðinn og gera ungum og efnaminni kleift að leigja sér öruggt, ódýrt og vandað húsnæði. Skv. dómi sem féll innan ESB standast slíkar aðgerðir lög. Sveitarfélaginu er því ekkert að vanbúnaði.

Það sem gerir samstarf við Bjarg íbúðafélag spennandi er að það hefur mikinn metnað þegar kemur að hönnun íbúða. Um er að ræða leiguhúsnæði að danskri fyrirmynd “Almene boliger” þar sem leiga fer eftir efnum og er aldrei hærri en 25% af tekjum. Fólk á að eiga þess kost að skipta um húsnæði innan kerfisins eftir þörfum og búa í íbúðum á vegum félagsins alla ævi. Ráð er fyrir því gert að reksturinn sé sjálfbær, þ.e. að leiga standi alfarið undir kostnaði. Arðinn síðar meir á síðan að nota til að byggja fleiri íbúðir. 

Íbúahreyfingin gerir ráð fyrir vistvænni byggð með blágrænar ofanvatnslausnir, græn þök, framúrskarandi almenningssamgöngur og lágmarks bílaeign.

Myndin er af “almene boliger” í Danaveldi.

Bjarg íbúðafélag

Lög um almennar íbúðir 115/2016

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Pin It on Pinterest

Share This