Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Reynslan hefur kennt okkur að loforð stjórnmálaflokka fyrir kosningar gefa litlar vísbendingar um efndir að þeim loknum. Það er því stefna Íbúahreyfingarinnar að lofa engu nema því að vinna af alúð og trúmennsku að lýðræðisumbótum og gegnsæi í stjórnsýslu og nefndarstarfi á komandi kjörtímabili. Við viljum hafa allt upp á borðum því það veitir valdhöfum aðhald sem aftur hefur mikil og jákvæð áhrif á það hvernig fjármunum sveitarfélagsins er ráðstafað.
Áherslur Íbúahreyfingarinnar eru því ekki loforðalisti heldur okkar sýn á verkefni sem stuðla að góðu samfélagi og við viljum vinna að í nánu samstarfi við íbúa.
Íbúahreyfingin gerir kröfu um gott siðferði í stjórnmálum og leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórnun. Loftkastalar eru ekki á okkar verkefnalista, heldur raunhæfar aðgerðir sem nýtast þeim sem á þurfa að halda og þjóna hagsmunum samfélagsins. Góð menntun barnanna okkar, trygg afkoma heimilanna, félagslegt réttlæti, góð heilsa og öruggt umhverfi eru okkar leiðarljós. Okkar verkefni er að forgangsraða og tryggja jafnræði við úthlutun fjár.
Það eru gömul sannindi og ný að það er engum stjórnmálaöflum hollt að drottna of lengi því þannig tapast aðhaldið sem er áhrifamesta stjórntæki bæjarbúa. D-listi hefur ráðið lögum og lofum í Mosfellsbæ í tólf ár og tími til kominn að hann fái tækifæri til að endurnýja sig. Þótt ýmislegt hafi verið gott, hefur of margt farið úrskeiðis og efndir oft og tíðum reynst litlar.
Það er fyrir tilstuðlan Íbúahreyfingarinnar að nú má hlusta á hljóðritanir frá bæjarstjórnarfundum. Mörg mál í þágu lýðræðislegra vinnubragða hafa verið reifuð og unnin saman af minnihlutanum í nefndum og bæjarstjórn. Með eftirgangsmunum hefur minnihlutinn þurft að sækja lögvarinn rétt allra stjórnmálaflokka til að fá mál sett á dagskrá funda og í tvígang hefur þurft að hlutast til um málið í bæjarstjórn. Við sem höfum setið í minnihluta undanfarin ár höfum verið minnt á það hvað eftir annað hversu stutt á veg kominn Mosfellsbær er í að innleiða lýðræðislegt verklag og það þrátt fyrir að mótuð hafi verið lýðræðisstefna árið 2011. Í henni er skýrt tekið fram að fundargerðir eigi að vera „lýsandi fyrir efni fundarins og þær ákvarðanir sem þar eru teknar og afstöðu einstakra nefndarmanna í því skyni að tryggja gagnsæi í nefndarstörfum“.
Í stað þess að bregðast við ábendingum hefur meirihlutinn farið í vörn og jafnvel varið gamaldags vinnubrögð við ritun fundargerða hvað ofan í æ. Þetta er slæmt því gegnsæi í nefndarstörfum hefur ríkan lýðræðislegan tilgang, þ.e. „að virkja íbúa til þátttöku í málefnum og stefnumótun sveitarfélagsins og tryggja þannig aukna þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og mótun nærumhverfisins.“, segir í lýðræðisstefnunni.
Eins og sést á þessu er stefnumótun eitt og raunveruleiki annað hjá þeim sem ráða í Mosfellsbæ. Það er í raun óskiljanlegt hvað þetta er erfið fæðing því samfélagið kallar á breytt vinnubrögð í pólitík.
Íbúahreyfingin vill að Mosfellsbær sé öðrum sveitarfélögum fyrirmynd í vandaðri og nútímalegri stjórnsýslu. Kjósendur eiga valið. Það er þeirra að sýna aðhaldið og tryggja að unnið sé í þeirra þágu.

Pin It on Pinterest

Share This