Jóhannes B. Eðvarðsson, skipar 8. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Jóhannes B. Eðvarðsson, skipar 8. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Ert þú fylgjandi byggingu fjölnota íþróttahúss í Mosfellsbæ?
Þetta er ein af þeim spurningum sem DV spyr frambjóðendur í Mosfellsbæ í sínum kosningaleik. Enginn frambjóðandi hefur þorað að svara þessari spurningu neitandi þar sem mikill áhugi virðist vera fyrir slíkri byggingu í bænum. Það er því ekki líklegt til vinsælda að vera á móti því. Mig langar hins vegar að svara spurningunni á eftirfarandi hátt.
Í fyrsta lagi held ég held að við ættum að fara að kalla húsið sínu rétta nafni og kalla það knattspyrnuhús. Jú, að sjálfsögðu væri gaman að hafa knattspyrnuhús í Mosfellsbæ. Ég er mikill aðdáandi hinnar göfugu íþróttar knattspyrnu og stundaði hana sjálfur á mínum yngri árum við ömurlegar aðstæður á malarvöllum, víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, oftast í rigningu og stormi. Ég er enn með kalblett á litlu tá hægri fótar eftir leik við Fylki þar sem boltinn hvarf í einni hviðunni og fannst ekki fyrr en eftir hálftíma. Það voru nefnilega ekki aukaboltar til staðar í þá daga, ónei.
Sem sagt ég er fylgjandi byggingu knattspyrnuhúss.
En hvað kostar slíkt hús? Fullbúið knattspyrnuhús í fullri stærð kostar ekki minna en einn milljarð. Og þar stendur hnífurinn í frúnni, eins og Dabbi vinur minn sagði alltaf. Skuldastaða Mosfellsbæjar er þannig að bærinn skuldar 130% af tekjum og samkvæmt lögum má hann ekki skulda yfir 150%.
Nú þegar er búið að samþykkja byggingu tveggja nýrra grunnskóla sem munu kosta 4,6 milljarða samtals. Sveitarfélagið er því komið með miklar fjárhagsskuldbindingar sem almennt er samstaða um að séu nauðslegar.
Staðreyndin er því sú að það eru ekki miklar líkur á því að við höfum efni á að reisa knattspyrnuhús á næstu árum þó svo að mikill áhugi sé fyrir því að fá slíkt hús í bæjarfélagið. Nema að við viljum komast undir væng eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Ég vil því benda þeim stjórnmálamönnum sem tala hvað hæst um byggingu knattspyrnuhúss á að það er ekki fallega gert að búa til væntingar sem augljóst er að ekki verður hægt að standa við.
Að lokum vil ég benda á að árið sem knattspyrnuhúsið á Akranesi var tekið í notkun féll ÍA úr efstu deild og árangur þeirra hefur verið með versta móti síðan. Í þessu sambandi er gott að hafa í huga að það er innihaldið sem skiptir mestu en ekki umgjörðin.

Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014.

Pin It on Pinterest

Share This