Samskipti í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafa lengi verið til umræðu meðal Mosfellinga. Tíðindin eru ekki ný. Íbúahreyfingin segir einfaldlega að nú sé komið nóg. Fólk þarf að bæta sig. Stjórnmálastarf á ekki að vera undanþegið þeim reglum sem almennt gilda um samskipti á vinnustað og það er atvinnurekandans, í þessu tilviki Mosfellbæjar, að sjá til þess að þær séu virtar.  Um eðlilegan skoðanaágreining er ekki að ræða, heldur síendurtekna ofbeldisfulla framkomu með lítilsvirðandi líkamstjáningu, truflandi hegðun, uppnefningum, útúrsnúningum,  persónulegum pillum og illu umtali.

Vanvirðingin við gildi bæjarins er augljós. Einkunnarorðin eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja, ásamt stefnu um heilsueflandi samfélag. Íbúahreyfingin kallar eftir því að bæjarstjórn virði þessar yfirlýsingar og fari fram með góðu fordæmi.

Fyrstu viðbrögð bæjarstjóra eru að halda því fram að tilgangurinn sé að koma höggi á pólitískan andstæðing. Fulltrúar Íbúahreyfingarinnar telja sig hins vegar vera að gefa fólki færi á að bæta sig og í þeim tilgangi óska fulltrúar hennar eftir úttekt vinnusálfræðings sem hlotið hefur viðurkenningu frá Vinnueftirltinu á samskiptum innan bæjarstjórnarinnar. Það að fulltrúar V- og S-lista skuli taka undir með bæjarstjóra lýsir best þeirra hlut í málinu. Þeirra afstaða var viðbúin og segir ekkert um réttmæli þess að Íbúahreyfingin skuli nú loksins óska eftir aðstoð vinnusálfræðings.

Á heimsíðu Vinnueftirlitsins segir:
“Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins.
Mat á áhættu skal ná til allra þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi. Sérstaklega skal litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin.”

Skv. lögum um vinnuvernd er ábyrgð Mosfellsbæjar sem sagt skýr. Í 65. gr. a. segir: “Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi.”

Undir þessa grein heyrir síðan Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Í 3. gr. segir:

“Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.”

Fólk sem tekur þátt í stjórnmálum veit að starfinu fylgir mikið álag. Það er ekki á það bætandi. Skoðanaágreiningur á að snúast um málefni, annað ekki. Það hvort tillagan sé raunhæf eða óraunhæf; hvort bæjarsjóður hafi fjárhagslegt bolmagn; hvort hún þjóni hagsmunum íbúa o.s.frv., o.s.frv.

Stjórnmálamenning sem snýst um allt annað en málefni skaðar okkar dýrmæta lýðræði. Fólk fær skömm á pólitík og treystir sér ekki til að blanda sér í hana. Því þarf að breyta og það er hlutverk þeirra sem starfa á þessum vettvangi að gera það. Íbúahreyfingin er tilbúin í það verkefni.

Úr fundargerð bæjarráðs 26. október 2017.

“1. 201710167 – Erindi Hildar Margrétardóttur um 1325. fund bæjarráðs
Erindi á dagskrá að beiðni fulltrúa Íbúahreyfingarinnar.
Hildur Margrétardóttir (HMa), varabæjarfulltrúi M-lista, mætti á fundinn undir þessum lið. Jafnframt var viðstödd Hanna Guðlaugsdóttir, mannauðsstjóri. Hildur vék af fundi kl. 7:39.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að fenginn verði vinnusálfræðingur sem hlotið hefur viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til að gera úttekt á samskiptum fulltrúa í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Honum verði einnig falið að gera áætlun um úrbætur.

Tillagan er felld með þremur atkvæðum.

Bókun V-, D og S- lista
Átölur Íbúahreyfingarinnar vegna þess að formaður bæjarráðs veitti fundarmanni ekki áminningu á bæjarráðsfundi 12. október sl.eru innistæðulausar og er þeim vísað á bug. Við áréttum einnig á að ásakanir um einelti eru grafalvarlegar en því miður er oft illa farið með þetta mikilvæga hugtak í íslensku samfélagi.

Bókun M – lista Íbúahreyfingarinnar
Ástæðan fyrir tillögu Íbúahreyfingarinnar er að framkoma meirihlutans í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur lengi borið öll einkenni eineltis en í reglugerð er það skilgreint svo:
“Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376

Ummæli af Facebook

María Grétarsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ segir þetta  í tilefni af fréttinni í  Fréttablaðinu:
“Ég varð vitni af þessu einelti af hálfu meirihlutans í Mosfellsbæ í þinn garð á fundi, á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, á Kjalarnesi fyrir um þremur árum síðan. Ég man líka að Bryndís Haraldsdóttir dró sig úr hópnum sem hegðaði sér á sama hátt og hér er líst og hlustaði gaumgæfilega á erindi þitt sem þú fékkst síðan samþykkt á fundi sömu aðila ári síðar í Kópavogi.”

Frétt um málið á Vísir.is

 

Pin It on Pinterest

Share This