Erindi Íbúahreyfingarinnar um kosningaáróður Sjálfstæðisflokksins á bæjarskrifstofum var tekið fyrir í bæjarráði föstudaginn 11. maí sem tillaga 7. 201802082 –  Sveitarstjórnarkosningar 2018.

Fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar óskaði Sigrún Pálsdóttir eftir umfjöllun um auglýsingar framboða við bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar. Tillaga Íbúahreyfingarinnar (sjá hér að neðan) snérist um að fulltrúar D-lista fjarlægðu kosningaáróður sinn úr gluggum Kjarnans og af vegg við innganginn að bæjarskrifstofunni:

,,Kjarni er opinber bygging sem hýsir bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar, fundarsali bæjarstjórnar og bæjarráðs, auk annarra fagnefnda, Bókasafn Mosfellsbæjar, Listasal Mosfellsbæjar og Heilsugæslu Mosfellsbæjar. Í húsinu fundar einnig yfirkjörstjórn Mosfellsbæjar. Á Íslandi, eins og í öðrum lýðræðisríkjum, er grundvallarregla að hengja ekki upp kosningaráróður á og í opinberum byggingum. Íbúar í Mosfellsbæ eiga rétt á því að þeim sé hlíft við slíkum áróðri þegar þeir koma í erindagjörðum á bæjarskrifstofu sína. Íbúahreyfingin hvatti Sjálfstæðisflokkinn til að virða þá meginreglu að merkja framboði sínu ekki húsið sem í hugum Mosfellinga er ráðhús bæjarins.’’

Tillaga Íbúahreyfingarinnar var felld með 2 atkvæðum D-lista. S-listi sat hjá en bókaði samt kvörtun. Fulltrúi V-lista tók undir með D-lista enda eru þau með kosningaskrifstofu í sama húsi.

Markmið Íbúahreyfingarinnar með tillögunni var að vekja athygli á kosningaáróðri framboðsauglýsinga á Kjarnanum sem hýsir bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar, Bókasafn Mosfellsbæjar, Listasal Mosfellsbæjar og Heilsugæslu Mosfellsbæjar auk þess fundar yfirkjörstjórn Mosfellsbæjar einnig í húsinu. D-listinn er í meirihluta og stýrir Mosfellsbæ úr bæjarskrifstofum Kjarnans.

Við í Íbúahreyfingunni og Pírötum teljum að jafnræði eigi að ríka og það að tillagan hafi verið felld veki upp alvarlegar spurningar um siðferði í stjórnmálum. D-listinn réttlætir merkingar sínar utan á húsi Kjarnans með að þetta hefur verið gert áður sem við teljum ekki vera grunn fyrir að gera það aftur. Annað áhugavert við þetta mál er að S-listinn sat hjá í atkvæðagreiðslunni en bókaði samt kvörtun vegna framboðsmerkinga á húsi Kjarnans og taldi merkingar óviðunandi í kvörtun sinni. Það vekur undrun að S-listinn getur ekki staðið með sér og kosið eftir eigin sannfæringu.

Öflugt aðhald hefur einkennt starf Íbúahreyfingarinnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og ljóst er að þörf er á því áfram. Íbúahreyfingin og Pírtar fylgja eftir áherslum sínum af festu og heiðarleika og því verður engin breyting á!

Pin It on Pinterest

Share This