Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, er í 2. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata í komandi sveitarstjórnarkosningum í Mosfellsbæ. Kristínu Völu eru málefni sjálfbærni hugleikin en hún hefur starfað síðastliðin 30 ár við kennslu og rannsóknir á þessu sviði með samtvinnun rannsókna á umhverfis-, efnahags- og samfélagsmálum, fyrst við Háskólann í Bristol í Englandi og nú við Háskóla Íslands. Kristín Vala situr í nokkrum hugveitum sem vinna að sjálfbærri þróun á alþjóðavísu. Í þeirri vinnu hefur hún komist að því að helsti óvinur sjálfbærni er spilling og ógegnsæi og hún brennur fyrir upprætingu þessara áhrifavalda. Undanfarin ár hefur hún unnið að stefnumótun með Pírötum hvað umhverfi- og velferðarmál varðar. Hún hefur búið í Mosfellsbæ í 3 ár og er hugfangin af náttúrunni og fólkinu í bænum.
Kristín Vala hefur síðastliðin 10 ár setið í ýmsum nefndum á vegum ríkisstjórnar Íslands og borgarstjórnar Reykjavíkur um málefni sem varða menntun, rannsóknir, nýsköpun, grænt hagkerfi, sjálfbærni og framtíðarstefnu. Hún situr í stjórn Rauða krossins í Mosfellsbæ og sat í stjórn Landsvirkjunar. Við erum stolt að segja frá því að Kristín Vala var nýlega skipuð af iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í þverpólitískan starfshóp til að vinna tillögu að orkustefnu Íslands, en vænst er að hann skili tillögu til umræðu á Alþingi í byrjun árs 2020.
Kristín Vala er gift Harald Sverdrup, prófessor við Háskóla Íslands, og á tvö uppkomin börn, Tómas Ragnar sem er læknir og starfar í Bandaríkjunum og Katrínu Margréti sem er sálfræðingur og starfar í Bretlandi. Hún er svo rík að eiga átta stjúpbörn og þrjú barnabörn sem búa í Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi, Svíþjóð og Rússlandi.