Hér á eftir fer gróf lýsing á því sem fram kom á fundi bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ með Landsneti 18. janúar sl.
Landsnet hyggst auka flutningsgetu Brennimelslínu 1 og hafa fulltrúar fyrirtækisins nú kynnt hugmyndir sínar fyrir bæjaryfirvöldum. Fundurinn var liður í undirbúningi verkefnisins en línulagnir geta haft víðtæk áhrif á landslag og ásýnd svæða, virði lands, fuglalíf, vatnsból og annað lífríki. Náið samráð er því mikilvægt við þau sveitarfélög sem línan fer um.
Fyrirhuguð lína, Brennimelslína, mun liggja í um 40 m fjarlægð frá eldri og aflminni línu sem tekin verður niður og nefnist Brennimelslína 1. Möstur nýju línunnar eru allt að 4 m hærri en gömlu línunnar, auk þess sem haftið á möstrunum víkkar í allt að 36 m. Á móti kemur að möstrum fækkar þar sem vegalengd milli þeirra lengist. Flutningsgeta línunnar verður 400 kV í stað 220 kV áður.
Brennimelslína mun liggja frá tengivirki við Lyklafell í landi Mosfellsbæjar, um Mosfellsheiði austan Grímannsfells, niður Kjósarskarð, yfir Hvalfjörð að Þyrli og þaðan að Brennimel í Hvalfirði þar sem hún tengist Sultartangalínu 3. Á sömu slóðum eru stóriðjufyrirtæki á Grundartanga.
Tilgangur verkefnisins er að sögn fulltrúa Landsnets að gera raforkukerfið á suðvesturhorninu afkastameira og tryggara. Einnig að tengja vestari hluta landsins betur við rafmagn.
Landsnet mun bera saman 3 valkosti:
A. Gömlu Brennimelslínuna sem liggur frá Geithálsi framhjá Hafravatni og þaðan áfram um Mosfellsheiði í Hvalfjörð en fyrirhugað er að taka þá línu niður ef nýja Brennimelslínan (valkostur C) verður ofan á. Gamla línan er merkt með hvítum lit og liggur að stórum hluta samhliða rauðu línunni. Satt best að segja væri góður kostur fyrir Mosfellinga að losna við Geithálstengingu Brennimelslínu úr bæjarlandinu.
B. Jarðstrengur um Mosfellsbæ, Kjalarnes og Hvalfjörð. Blár litur.
C. Aflmeiri Brennimelslína sem lýst er hér að ofan. Rauður litur. Hún liggur ekki að Geithálsi.
Umræður á fundinum
Nú er ljóst að stóriðjufyrirtæki nota um 80% af því rafmagni sem framleitt er á Íslandi, heimilin um 6-10%. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar spurði því hvort fyrirhugað kísilver á Grundartanga kallaði á meiri flutningsgetu kerfisins, þ.e. þessa aukningu. Svarið var já og nei en einnig eitthvað á þá leið að þar sem jarðskjálftar eru tíðir væri líka nauðsynlegt að rafmagn gæti borist eftir fleiri en einni leið hvert svo sem það færi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd mynda Sultartangalína 3, Búrfellslína 3 og Brennimelslína 1 hringekju, þ.e. ef Sultartangalína 3 dettur út fær suðvesturhornið og Vesturland rafmagn í gegnum Búrfellslínu 3 og Brennimelslínu eða öfugt.
Í ljósi þess hvað stóriðjan er stór notandi spurði Íbúahreyfingin einnig hver kostnaðarhlutdeild hennar væri í svo dýru verkefni. Það svar fékkst að hún greiðir fyrir rafmagn aðeins sem notandi, þ.e. stórnotandi en þeir greiða lægra verð en önnur fyrirtæki og heimili í landinu.
Fleiri fundir sveitarstjórnarfólks í Mosfellsbæ verða með Landsneti um Brennimelslínu. Einnig tengivirki við Lyklafell þar sem Brennimelslína, Búrfellslína 3 og Sandskeiðslína 2 (sem er hluti af Suðvesturlínu) mætast. Sá fundur er fyrirhugaður 31. janúar.
Gagnlegt væri að fá að vita hvað þið, Mosfellingar góðir, hafið um þessi mál að segja.
Tölvupóstur Íbúahreyfingarinnar er ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is