Eitt af því sem gerir Mosfellsbæ að góðum dvalarstað er mikil náttúrufegurð. Þetta á sérstaklega við um Leiruvog sem er að hluta til í Mosfellsbæ og að hluta í landi Reykjavíkur. Vogurinn er á náttúruminjaskrá en æskilegt væri að friðlýsa hann með öllu. Í lýsingu Umhverfisstofnunar á svæðinu segir að þar sé að finna fjölbreyttustu sjávarfitjar í nágrenni Reykjavíkur, mikið fuglalíf og sjaldgæfar plöntur.
Sem útivistarsvæði hefur Leiruvogur verulegt fræðslugildi enda alþjóðlega mikilvægur viðkomustaður farfugla. Um 50 fuglategundir hafa verið skráðar og eru margar þeirra á válista. Ísland ber alþjóðlega ábyrgð á mörgum fuglategundum t.d. margæs og rauðbrystingi sem eru umferðarfuglar í voginum.
Leirurnar eru forðabúr fæðu fyrir fugla. Á köldum vetrum og snemma á vorin gegna þær sérstaklega mikilvægu hlutverki fyrir ýmsar fuglategundir til að lifa af.
Leiruvogur er vel staðsettur í bæjarlandinu, gott aðgengi að honum og fínir göngustígar. Nálægðin við sjóinn og frábært útsýni til Esjunnar og á fellin gefur svæðinu sérstakan blæ þannig að margir íbúar höfuðborgarsvæðisins nýta sér voginn til útivistar. Til að hvíla og njóta mætti þó setja upp fleiri bekki.
Af því að vogurinn er svo vel staðsettur er tilvalið að nýta hann til náttúru- og umhverfisfræðslu fyrir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum.Til að auka fræðsluhlutverk svæðisins hefur nú þegar verið reist fuglaskoðunarhús við Langatanga en gera mætti mun betur. Húsið þarf að vera opið almenningi og undir eftirliti bæjarstarfsmanna þannig að það nýtist sem skyldi. Tilvalið væri að útbúa fuglafræðslustíg með tilheyrandi skiltum og upplýsingum.
Fuglaskoðun er vaxandi grein í ferðamennsku. Á Íslandi mætast fuglategundir frá tveimur heimsálfum sem gera landið sérstaklega spennandi fyrir fuglaáhugafólk.
Til að svæðið haldi verndargildi sínu er mikilvægt að ganga vel um það og forðast frekari mannvirkjagerð.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á að Leiruvogur verði friðlýstur og vonar að það gangi eftir á næsta kjörtímabili.

Úrsúla Jünemann

Pin It on Pinterest

Share This