Við sem búum í Mosfellsbænum erum stolt af náttúrunni allt í kringum okkur. Hér getur hver og einn stundað útivist við sitt hæfi. Það er sérlega mikilvægt á þessum erfiðu tímum þar sem COVID setur okkur svo þröngar skorður. Fjöllin í kringum okkar laða að alveg eins og skóglendin. Fjórar fallegar ár renna í gegnum bæjarlandið eða rétt hjá. Þar eru fossar og frábærar gönguleiðir.
En svo er ein perla í landi Mosfellsbæjar sem ég vil nefna sérlega: Strandlengjan við Leiruvoginn. Innst í voginum er friðlandið við Varmárósa. Það er nýbúið að stækka þetta svæði og er það gott.
Æskilegt væri að Leiruvogurinn, sem hefur verið lengi á náttúruminjaskrá, væri einnig friðlýstur í heild. Reykjavíkurborg hefur stigið skrefið til fulls og nýlega friðlýst sína strandlengju frá Blikastaðarkró og vestur úr. Hvers vegna gátu mosfellsku yfirvöldin ekki verið í samfloti í þessu til að skapa eina heild?

Margæs í Leiruvogi
Margæs og stelkur leita sér að æti á leirunum í Leiruvogi.


Leirurnar í voginum eru sérstakar og mjög dýrmætt lífríki. Þær eru ákaflega frjósamar og þar þrífst urmull af smádýrum sem gefa hundruðum jafnvel þúsundum fugla fæði allt árið í kring. Í leirurnar leita vetrarfuglar þegar lítt annað er að fá í gogginn. Svæðið er líka afar mikilvægt fyrir umferðarfugla sem stoppa hér á leiðinni til að birgja sig upp áður en þeir halda áfram. Má þar nefna margæs, rauðbrysting og fleiri tegundir.
Útivistarfólk í Mosfellsbænum og reyndar líka í Reykjavík vilja væntanlega varðveita þessa strandlengju og vernda hana. Það á við alla þá sem njóta einstakrar náttúru við sjóinn: göngufólk, skokkarar, hestamenn, hjólreiðafólk og golfarar. Að fara meðfram strandlengjunni jafnt að sumri sem vetri er alltaf sérstök upplifun.

Úrsúla Jünemann

Greinin birtist 1. apríl í Mosfellingi

Pin It on Pinterest

Share This