Í Kastljósi í liðinni viku var umfjöllun sem kallaðist „Lýðræði í kreppu“. Þar kom fram hvernig traust á stjórnmálamönnum hrundi með fjármálaloftköstulunum árið 2008. Í þættinum voru birtar myndir af kynningarfundi lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar sem haldinn var á dögunum og einnig var talað við kynningarstjóra bæjarins. Kynningarstjórinn útlistaði í löngu máli hversu erfitt væri að fá fólk til að taka þátt í þeim viðburðum sem bærinn stendur að í nafni lýðræðisvæðingar.
Svo skemmtilega vildi til að ég var stödd á þessum fundi lýðræðisnefndar og eftir fundinn skrifaði ég athugasemd sem ég sendi á lýðræðisnefnd og birti líka sem grein á vefritinu Smugan.is. Nafn greinarinnar er „Af hverju nennir fólk ekki að mæta á fundi?“. Hún er aðgengileg á www.ibuahreyfingin.is og fjallar um tilgangsleysi þess að halda fundi þar sem vandlega er passað upp á að lýðræðisleg umræða komist ekki á flug og að ekki falli skuggi á skoðanir þeirra sem valdið hafa.
í Kastljósþáttunum varpar fréttamaðurinn fram spurningunni: „Er fólk ekki bara komið með upp í kok af því að stjórnmálamennirnir virðast, sama hvað tautar og raular, alltaf eiga síðasta orðið?“ Gerry Stoker, breskur stjórnmálafræðiprófessor, svaraði því til að það væri raunin, fólk nennir ekki að taka þátt í lýðræðisferlum þar sem lokaniðurstaðan er algjörlega í höndum stjórnmálamanna.
Ég hef nokkuð oft mætt á fundi sem haldnir eru í nafni lýðræðis hjá bænum og svo virðist sem þeir sem standa að þessum fundum haldi sjálfir að þeir séu framlag til lýðræðisvæðingar. Það er hins vegar ekki sú tilfinning sem ég og mjög margir aðrir hafa af þessum viðburðum.
Fyrir kosningar var haldinn fundur þar sem meirihlutinn neitaði að svara fyrirspurnum. Í október 2010 var haldinn íbúafundur um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar. Íbúar áttu þar að koma með tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun án þess að hafa nein gögn í höndunum til að gera það mögulegt að koma með vitrænar tillögur. Afar óljóst úrvinnsluferli kórónaði svo þessa „lýðræðisaðgerð“.
Lýðræðisnefnd hefur nú lokið störfum. Íbúakosningar verða ekki bindandi og 20% íbúa þarf til að kalla eftir íbúakosningu. Hægt hefði veið að ganga miklu lengra í því að færa valdið aftur til fólksins en lýðræðisnefnd, að undanskildum fulltrúa Íbúahreyfingarinnar, kaus að nota ekki tækifærið. Þessar niðurstöður segja mér að fólk í nefndinni hafi gleymt því hvert það sækir valdið, þ.e. til almennings.
Íbúalýðræði felst ekki eingöngu í íbúakosningum en þær eru þó mikilvægt verkfæri fyrir íbúa til að grípa inni í aðgerðir stjórnvalda. Ein rök fyrir því að ekki var lengra gengið eru þau að við búum við fulltrúalýðræði og virðast þau rök byggja á þeim misskilningi að það sé ósamrýmanlegt íbúalýðræði.
Oft heyrist í umræðum að vandamál íslenskra stjórnmála sé vöntun á sterkum leiðtogum. Ég tel að þetta sé „rangur misskilningur“. Mín heitasta ósk varðandi stjórnmál á Íslandi er að almenningur hætti að bíða eftir misvitrum leiðtogum og axli sjálfur ábyrgð á lýðræðinu með þátttöku og málefnalegum skoðanaskiptum.
Þær misheppnuðu uppfærslur á lýðræðinu sem ég hef orðið vitni að í Mosfellsbæ eru hins vegar ekki vörður á vegi hins nýja lýðræðis.
Kristín I. Pálsdóttir
Greinin birtist í Mosfellingi 10. nóvember 2011.