Ég starfa við endurhæfingu, heilsueflingu og endurreisn, því er lýðheilsa mér hugleikin. Jákvæð líðan er uppbyggjandi afl, bæði andlega og líkamlega. Samfélag þar sem íbúar eru virkjaðir til samráðs og þátttöku á lýðræðisleg um vettvangi eflir áþreifanlega jákvæðni, samhug og heilsu.  Í gegnum störf mín hef ég kynnst þversniði af íslensku þjóðinni og hinn mikli mannauður sem við eigum í hverjum einstaklingi verður mjög áþreifanlegur á þeim vettvangi.

Í Mosfellsbæ búa um 8500 manns og er ljóst að þar er hin sanna auðlind okkar falin í uppsafnaðri reynslu, þekkingu og menntun. Við hjá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ höfum það markmið að virkja þann mannauð sem samfélag okkar býr yfir og við teljum að lýðræðisumbætur þær sem gömlu flokkarnir boða með ósannfærandi hætti, muni ekki raunbirtast í náinni framtíð. Virkt lýðræði, samráð og samskipti íbúa er lykillinn að heilbrigðu samfélagi og krafa nútíma þjóðfélags.

Hrun það sem við Íslendingar erum að horfast í augu við er afleiðing úreltra stjórnarhátta. Þessu verðum við að breyta og það gerist ekki nema við sem áður treystum flokksvélunum rísum upp, gefum fortíðinni frí og tökum í taumana. Sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga var og er baráttalýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar.

Sjálfstæðisbaráttan í dag er gegn breiskleikum og þrá mannsins í auð og völd sem kristallast í fornum hagsmunavélum sem nú berjast við að halda lífi í sjálfum sér þrátt fyrir að hafa algerlega brugðist og skilið okkur eftir með risa vaxið endurreisnarverkefni til langrar framtíðar.

Ég treysti þeim ekki lengur og tel að hinar gömlu flokksvélar eigi ekki erindi í bæjarmálin. Ég vil virkt lýðræði, samhug og samkennd, ég vil að mannauður okkar verði virkjaður í Mosfellsbæ, ég vil taka þátt í að byggja nýja og betri framtíð, ég vil nýtt Ísland og nýtt Ísland hefst í heimabyggð. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ er ágætis byrjun. x­M

Guðbjörg Pétursdóttir

Pin It on Pinterest

Share This