Viðmiðunarupphæð fjárhagsaðstoðar var á dagskrá fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar þann 25. janúar 2011. Á fundinum lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar það til að afgreiðslu málsins yrði frestað í ljósi þess að von var á birtingu neysluviðmiða af hálfu Velferðarráðuneytisins. Auk þess lágu fyrir nefndinni tilmæli til sveitarstjórna frá ráðherra um að þær tryggi að einstaklingar hafi að lágmarki sambærilega fjárhæð og atvinnuleysisbætur til framfærlsu á mánuði, eða tæpar 150.000 krónur á mánuði. Nefndin ákvað hinsvegar að leggja það til við bæjarstjórn að viðmiðunarupphæðin taki breytingum í samræmi við verðlagsþróun. Þannig hækki fjárhæðin sem um ræðir fyrir einstakling úr 125.540 krónum á mánuði í 128.627 þúsund krónur á mánuði frá og með janúar 2011.
Við afgreiðslu málsins lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar því fram eftirfarandi bókun: ,,25. grein Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna hljóðar svo: Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.

Þá hljóðar 76. gr. íslensku stjórnarskrárinnar svo: Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Í ljósi ofangreinds harmar fulltrúi Íbúahreyfingarinnar ákvörðun nefndarinnar því ljóst er að samþykkt viðmiðunarupphæð dugar ekki til framfærslu og brýtur þar með í bága við stjórnarskrá og mannréttindi.”
Bæjarstjórn ákvað svo á fundi sínum þann 2. febrúar 2011, gegn atkvæði fulltrúa Íbúahreyfingarinnar, að staðfesta ákvörðun meirihluta fjölskyldunefndar.
Það skiptir máli hverjir stjórna í Mosfellsbæ.

Kristbjörg Þórisdóttir
fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í fjölskyldunefnd

Þórður Björn Sigurðsson
varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í mosfellingi 24. febrúar 2011

Pin It on Pinterest

Share This