pudiÞátttakendum á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga​ gæti fjölgað um 55 ef sú tillaga Íbúahreyfingarinnar nær fram að ganga á þinginu nú í apríl að öll framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn öðlist rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á landsþingi með tillögurétt og málfrelsi.

Frá sjónarhóli lýðræðis er ávinningurinn ótvíræður. Eins og staðan er í dag njóta framboð ekki jafnræðis og minni framboð hafa hvorki möguleika á að láta rödd sína heyrast né sama aðgang að upplýsingum og stærri framboð um þau mál sem verið er að ræða á þessum stefnumótandi samráðsvettvangi sveitarfélaga á Íslandi.

Í sveitarstjórnarlögum er opnað á að framboð sem ekki ná því að fá kjörinn aðalmann í nefndir en eiga fulltrúa í sveitarstjórn eigi rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa. Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að samskonar ákvæði verði virkja á vettvangi landsþings.

Meirihlutaræði hefur lengi verið lenska í stjórnmálastarfi á Íslandi. Í sveitarstjórnarlögum er hins vegar ekkert sem heitir meirihluti eða minnihluti, heldur eru kjörnir fulltrúar allir jafn réttháir fyrir lögum og beinlínis þeirra hlutverk að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í undirbúningi pólitískrar ákvarðanatöku.  Eins og fyrirkomulagið er í dag einoka stærri framboð víða málefnavinnuna. Það sem verra er er að skilningur á lýðræðislegum leikreglum er nokkuð almennt ekki meiri en svo að það þykir bara sjálfsagt að útiloka minni framboð frá þátttöku í undirbúningsvinnu. Lýðræðið fer því fyrir lítið og meirihlutaræði eða öllu heldur stjórnmál kúgunar tryggja sig í sessi.

Frá sjónarhóli jafnræðis verður ekki séð hvernig slík vinnubrögð geta viðgengist mikið lengur. Allavega er nokkuð ljóst að á meðan að þessi grunnstoð lýðræðisins öðlast ekki meira vægi í stjórnmálastarfi verður því takmarki seint náð að innleiða samræðustjórnmál á Íslandi. Íbúahreyfingin bíður því spennt eftir niðurstöðu landsþings.

Pin It on Pinterest

Share This