ursulaFyrir meira en 30 árum fluttum við hjónin í Mosfellssveit eins og sveitarfélagið hét þá. Á þeim tíma gat maður fest kaup á húsnæði sem var talsvert ódýrara en í Reykjavík. Okkar börn ólust upp hér í bænum og fengu sína grunnskólamenntun í Varmárskóla. Þá var þetta eini skólinn á staðnum.

Ég hef alltaf unnið hér í bænum. Fyrst í leikskólanum Hlíð og sem stundakennari í Gagnfræðaskólanum eins og eldri deild Varmárskólans hét þá.
Ört vaxandi sveitarfélag varð að bæjarfélagi. Það hafði ekki undan við að skapa rými fyrir öll skólabörnin. Varmárskólinn var tvísetinn, kennsla bæði fyrir og eftir hádegi. Ég var þá þegar starfandi sem myndmenntakennari. Á þeim tíma þekkti ég ennþá öll börnin í bænum því ég kenndi þeim öllum í mínu fagi á yngra stigi. Svo var byggt við skólann sem var forsendan til þess að gera hann einsetinn. Mér þótti æðislegt að fá almennilega fagstofu fyrir myndmennt sem var ekki í kjallaranum. Góð birta og nægilegt rými. Því miður eru margar fagstofur ennþá í dag í kjallara sem telst ekki vera gott húsnæði.
Árið 2001 voru Gagnfræðaskólinn og Varmárskólinn sameinaðir í einn skóla og þar með varð til einn stærsti grunnskóli á landinu.
En bæjarfélagið stækkaði áfram eins og allar spár gerðu reyndar ráð fyrir. Útibú Varmárskólans á vestursvæði varð til. Og svo reis Lágafellsskólinn loksins sem sjálfstæður skóli. Krikaskólinn bættist við á sérstökum forsendum. En bæjarfélagið stækkar ennþá hratt og einhvernveginn virðumst við alltaf vera á eftir þróuninni í skólamálum. Bráðarbirgðarskúrar hafa skreytt Lágafellsskólann lengi vel og sama virðist í nánari framtíð vera upp á teningum í Varmárskóla.
Mér þykir vænt um þennan skóla þar sem ég er búin að vinna í meira en 20 ár. Þetta er vinalegur skóli með góðu starfsfólki og faglegri starfsemi þar innan veggja. Nemendafjöldin er kominn að vísu fyrir löngu upp fyrir það sem þykir æskilegast. Þetta gerir allt skipulag erfitt og álagið eykst bæði á starfsfólk og nemendur.
Mér þykir mjög vænt um þennan skóla þar sem börnin mín fengu góða menntun. Og mér sárnar hve lítið er áætlað í viðhald, bætur og rekstur í þennan skóla. Hann er orðinn rúmlega 50 ára og með meira en 700 nemendur í frekar þröngum húsakosti. Það segir sig sjálft að hann þarf á talsverðu fjármagni í endurbætur að halda. Ætli forgangsröðun sé ekki eitthvað skökk í fjárhagsáætlun bæjarins þar sem styrkir til gólfklúbbsins virðist vera hærra en það sem er áætlað til viðhalds í Varmárskóla?
Ekki er ennþá gert ráð fyrir öðrum varanlegum skóla miðsvæðis í Mosfellsbænum að svo stöddu. Ég leyfi mér að spyrja: Hvers vegna ekki? Eru bráðarbirgðarlausnir virkilega ódýrarar þegar upp er staðið? Er ekki tími kominn til að sinna skólamálunum í Mosfellsbænum betur en með einhverjum reddingum? Setjum skólamálin í fyrsta sæti!

Úrsúla Jünemann

Pin It on Pinterest

Share This