Á bæjarráðsfundi nýverið ákvað bæjarráð að veita bæjarstjóra leyfi til þess að ganga til samninga við Landsbanka Íslands vegna kröfu hans um lúkningu á sjálfskuldarábyrgð bæjarfélagsins á skuldabréfi Helgafellsbygginga ehf.
Sjálfskuldarábyrgðin er ólögleg samkvæmt sveitarstjórnarlögum, en skuldabréfið var gefið út vegna vangoldinna víxla Helgafellsbygginga ehf., viðtaka sveitarfélagsins á víxlunum var einnig ólögleg samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Þær lagagreinar sem banna viðskipti af þessu tagi eru settar til að sporna gegn spillingu og til varnar íbúum sveitarfélaga.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er bæjarráði óheimilt að fullafgreiða mál sem varðar framsal eigna og réttinda sveitarfélagsins, enda er bæjarráð skipað 3 mönnum með atkvæðisrétt og fundir þess lokaðir almenningi á meðan bæjarstjórnarfundir eru opnir almenningi og skipað sjö fulltrúum með atkvæðisrétt. Ákvæðin sem takmarka vald bæjarráðs með þessum hætti eru sett til þess að sporna gegn spillingu og til varnar íbúum sveitarfélaga. Bæjarráð hafði atkvæðisrétt af fjórum bæjarfulltrúum, málfrelsi af tveimur eða þeim sem ekki sitja í bæjarráði og kom í veg fyrir að fundarefnið væri rætt á opnum fundi eins og lög kveða á um.
Málsmeðferðin var kærð af bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar til Innanríkisráðuneytisins sem vísaði málinu frá á grundvelli þess að bæjarfulltrúi væri ekki aðili að málinu; það varði ekki réttindi hans og skyldur. Hverjir ætli séu aðilar að málsmeðferðinni að mati Innanríkisráðuneytisins ef ekki bæjarfulltrúar?
Niðurstöðu ráðuneytisins verður vísað til Umboðsmanns Alþingis.
Jón Jósef Bjarnason
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ