Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2011 hefur nú verið lagður fram. Í ljósi þess að Mosfellsbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur haft umfjöllunar vegna bágrar fjárhagsstöðu er ekki óeðlilegt að bæjarbúar gefi málinu gaum. Við skoðun ársreikningsins kemur í ljós að Mosfellsbær stenst nú þau skilyrði sem eftirlitsnefndin leggur til grundvallar:

Eins og getur að líta munar þó ekki miklu. Og þó að um sé að ræða jávæða þróun segir það hvorki alla söguna né gefur tilefni til að lýsa því yfir að Mosfellsbær sé kominn fyrir vind.
Varðandi skuldahlutfallið þá aukast bæði tekjur og skuldir milli ára. Tekjur árið 2010 voru um 4,5 ma.kr. en árið 2011 voru þær um 5,6 ma.kr. og höfðu hækkað um 1,1 ma.kr. milli ára. Munar þar mestu um nýjan tekjustofn: tæplega 600 m.kr. framlag úr jöfnunarsjóði vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélagsinsins. Eðli málsins samkvæmt rennur framlag jöfnunarsjóðsins til reksturs málaflokksins en ekki til annarra verkefna, svo sem niðurgreiðslu skulda. Þannig mætti reikna út að ef ekki væri fyrir þennan nýja tekjustofn mældust skuldir Mosfellsbæjar enn yfir viðmiðunarmörkum.
Skuldir bæjarins jukust annars um tæplega 300 m.kr. frá fyrra ári og eru nú um 8,4 ma.kr. Í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir 240 m.kr. sjálfskuldaábyrgð Mosfellsbæjar vegna Helgafellsbygginga ehf. sem lögfræðistofan LEX vill meina að sé ólögleg. Íbúar Mosfellsbæjar voru 8.642 í upphafi ársins 2011. Það gerir því um 970 þúsund krónur á hvern Mosfelling eða tæpar 4 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu.


Eins og sjá má á ofangreindri mynd halda skuldir per í búa áfram að aukast eins og þær hafa gert frá árinu 2007. Á neðangreindri mynd má svo sjá að vaxtakostnaður fer vaxandi á nýjan leik eftir að hafa farið lækkandi tvö ár í röð.


Í raun mætti segja að sá árangur sem náðist við rekstur Mosfellsbæjar á árinu 2011 renni óskiptur til lánadrottna því vaxtakostnaður ársins, 580 m.kr., er nánanst á pari við rekstrarafganginn fyrir fjármagnsliði, 560 m.kr..

Greinin birtist í Mosfellingi 26. apríl 2012.

Pin It on Pinterest

Share This