Við skoðun á ársreikningi Mosfellsbæjar 2009 kemur í ljós að sveitarfélagið hefur tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna 246 milljón króna láns sem Helgafellsbyggingar ehf. tóku á árinu 2009.  Á móti sjálfskuldarábyrgðinni hefur sveitarfélagið tekið tryggingu í formi veða í tilteknum lóðum í Helgafellshverfi.

En hvernig gerðist það að Mosfellsbær varð ábyrgur fyrir skuldum einkafyrirtækis?  Í svari bæjarstjóra við fyrirspurn undirritaðs kemur fram að í samræmi við samning milli Mosfellsbæjar og Helgafellsbygginga ehf. á félagið að greiða til Mosfellsbæjar fast gjald, 700 þúsund krónur, fyrir hverja skipulagða íbúðarlóð eða íbúð í fjölbýlishúsi.  Þó varð að samkomulagi við fyrsta uppgjör félagsins til Mosfellsbæjar vegna seldra íbúða 2007 í Helgafellslandi sem fram fór sumarið 2008, að félagið greiddi upphæðina 240 milljónir króna með þremur víxlum.  Sem baktryggingu fyrir greiðslu víxlanna var Mosfellsbæ sett að veði lóðir og fasteign Helgafellsbygginga ehf.  Að mati Helgafellsbygginga ehf. var verðmæti veðanna á þessum tíma áætlað um 388 milljónir króna.

Til einföldunar mætti segja að til að geta staðið við umsamdar greiðslur til bæjarins hafi Helgafellsbygginar ehf. tekið lán sem bærinn gekkst í ábyrgð fyrir.  Í staðinn tók bærinn veð í lóðum og fasteign Helgafellsbygginga.

Í ljósi þess hversu mikið verðfall hefur átt sér stað á fasteignamarkaði má velta fyrir sér hvort veðin standi undir umræddum lánum.  Ekkert mat hefur farið fram á verðmæti veðanna frá því samningurinn var gerður á sínum tíma og mat á veðunum hefur aldrei verið unnið af óháðum aðila.

Að sama skapi verður vart hjá því komist að leiða hugann að því hvort sú nýja hugmyndafræði sem þáverandi formaður bæjarráðs og skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson, kynnti til sögunnar í greininni „Uppbygging íbúðarhverfa ný hugmyndafræði í Mosfellsbæ“ sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. maí 2006, hafi reynst jafn áhættulaus og fullyrt var:

„Með þessu móti er tryggt að fjármagn fylgir frá landeigendum til að standa undir uppbyggingu á nauðsynlegri þjónustu í hverfunum og sá kostnaður lendir ekki á íbúum sveitarfélagsins. Auk þess fríar bæjarfélagið sig þeirri miklu áhættu sem fylgir uppkaupum. […] Sú leið sem hér hefur verið kynnt um uppbyggingu íbúðahverfa í Mosfellsbæ hefur vakið mikla athygli. Ljóst er að hér er um nýja hugmyndafræði að ræða sem önnur sveitarfélög munu vafalaust nýta sér.“

Getur verið að fjárhagurinn sé ekki jafn traustur í Mosfellsbæ og sumir vilja meina?

Þórður Björn Sigurðsson
varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Pin It on Pinterest

Share This