Náttúruvernd er eitt mikilvægasta málefni mannkynsins nú og í framtíðinni. Okkur ber að hlúa að vistkerfum jarðar og sjá til þess að þau virki áfram okkur í hag. Án heilbrigðra vistkerfa þrífst ekkert líf á jörðinni. Til að vernda náttúrugæði er nauðsynlegt að þekkja vel lögmál náttúrunnar.

En hvað er náttúra? Hún er það sem þróaðist á jörðinni án tilstilli mannsins og er í sífelldri þróun. Það er ekkert lokastig til í náttúrunni. Náttúran er allt í kringum okkur, hún vex, dafnar og deyr. Hún er lífið. Hún er síbreytileg og þróast á eigin forsendum. Hún er sjálfbær. Hún getur verið ofurviðkvæm en einnig alveg ótrúlega seig og hörð af sér. Náttúran er flókið samspil allra lífvera, lofts, vatns, jarðvegs og bergs. Lífverurnar eru allt frá því að vera örverur sem sjást ekki með berum augum til stórra og voldugra lífvera á borð við spendýr og fíla.

Án heilbrigðra og vel starfandi vist- kerfa lifum við ekki af. En mennirnir hafa alltaf haft tilhneigingu til að breyta og „bæta“ náttúruna svo að hún þjóni okkur sem best. Þannig höfum við af fávisku eða skammtímagróðahyggju gegnum tíðina eyðilagt það sem okkur er lífsnauðsynlegt og við gerum enn. Í landi Mosfellsbæjar eigum við talsvert eftir af dýrmætum náttúrusvæðum. Við höfum aðgang að lágreistum fjöllum, skóglendi, ám, vötnum og dásamlegri strandlengju. Sum svæðin eru í mikilli hættu og sem dæmi má nefna þau mýrlendi sem enn standa óhögguð. En sérstaklega verður mér hugsað til Varmár sem verður reglulega fyrir mengunarslysum. Fyrirbyggjandi náttúruvernd mun borga sig margfalt í framtíðinni. Uppbygging náttúrusvæða sem hafa hnignað og orðið fyrir alvarlegum skemmdum er mjög kostnaðarsöm og tekur langan tíma. Leyfum náttúrunni að njóta vafans og pössum hana vel þannig að hún geti áfram veitt okkur þá þjónustu sem við þurfum.

Stefna Í-lista í náttúruverndarmálum er að:

  • Auka framlög til náttúruverndar.
  • Kortleggja bæjarlandið með tilliti til náttúrugæða.
  • Vakta svæðin sem við viljum vernda reglulega og skrá allar breytingar þannig að hægt sé að grípa inn í tæka tíð og fyrirbyggja alvarlegt tjón.
  • Hugsa langt fram í tímann í skipulagsmálunum þannig að unnt sé að byggja upp útivistarsvæði til frambúðar og leyfa skóglendunum að vaxa og dafna.
  • Móta stefnu um fræðslu í umhverfis- og náttúruverndarmálum og fá sem flesta til að hafa vistvænan lífstíl.
  • Auka umhverfismennt í skólum með útikennslu, góðu kennsluefni og vel menntuðum kennurum, því þar er lagður grunnurinn.

Pin It on Pinterest

Share This