Það er áberandi nú fyrir kosningar í Mosfellsbæ að mikill áhugi hefur gripið um sig hjá öllum stjórnmálaflokkunum um að auka íbúalýðræðivog gagnsæi. En hvað er átt við með gagnsæi?

Samkvæmt skilningi okkar fellst gagnsæi í því að gögn sem liggja á bak við ákvarðanir í stjórnsýslunni séu opinber. Hjálmar Gíslason hjá DataMarket orðar þetta svona: „Gögn í eigu opinberra aðila eiga að vera opin nema ríkari hagsmunir leiði til annars“.

Gagnsæi er mjög mikilvægt til að borgararnir átti sig á því hvernig ákvarðanir eru teknar og einnig er það nauðsynlegt sem aðhald gagnvart stjórnvöldum.

Sem frambjóðendur í nýju framboði töldum við okkur þurfa að kynna okkur ýmis mál til þess að geta fjallað um þau á opinberum vettavangi. Í sveitarfélagi eins og Mosfellsbæ liggur beint við að fara á heimasíðu bæjarins, www.mos.is, til að skoða hvaða gögn eru þar aðgengileg. Við höfðum hugsað okkur að kynna okkur fjölda mála með því að lesa fundargerðir nefnda og sviða. Það reyndist ekki auðvelt.

Í fundargerðum kemur oft fyrir að aðeins dagskrá fundarins er skráð en ekki um hvað var rætt og engin tilvísun í gögn tengd efninu. Ef svo heppilega vill til að eitthvað er skráð þá er það oft illskiljanlegt sbr:

„Skipulags og byggingarnefnd Mosfellsbæjar – 227

Haldinn í Þverholti fundarherbergi bæjarráðs, 15.04.2008 og hófst hann kl. 07:00.
200804058 Mosfelldalur, staða í aðalskipulagi

Lögð fram minnisblöð bæjarritara og skipulagsfulltrúa varðandi skilgreiningu byggðar í Mosfellsdal. Starfsmönnum falið að vinna frekar að málinu í samræmi við umræður á fundinum.“

Hér vakna upp margar spurningar eins og: Hvaða „staða í aðalskipulagi“? Hvað stóð á minnisblöðum bæjarritara og skipulagsfulltrúa? Hvaða starfsmönnum var falið hvað? Um hvað s­nerus­t umræðurnar?

Fundargerðir ættu að vera lýsandi um málefnin og ákvarðanir sem teknar eru nema í þeim tilfellum þar sem fjallað er um persónuleg mál. Í opinni stjórnsýslu bæjarins ættu allar niðurstöður og gögn sem fylgja umræðum að liggja fyrir á sömu síðu.

Annað sem okkur langaði að kynna okkur voru launagreiðslur til bæjarfulltrúa og þeirra sem starfa í nefndum og ráðum. Á heimasíðunni er ekki að finna neinar upplýsingar um þau mál. Eins er með styrki og aðrar fjárveitingar til félagasamtaka. Þær ættu að vera öllum, sem vilja kynna sér, aðgengilegar.

Í stuttu máli má segja að við komumst fljótt að því að lítið var upp úr krafsinu að hafa á heimasíðu bæjarins sem þó er nýlega tekin í notkun. Bæði er erfitt að rata um síðuna og þegar maður finnur það sem leitað er að eru upplýsingarnar mjög ófullnægjandi.

Annað mikilvægt atriði varðandi gagnsæi er að þau gögn sem gerð eru aðgengileg séu sett fram á skýran og greinargóðan hátt. Það er augljóst, eftir okkar tilraunir til að nýta okkur gagnsæi í stjórnsýslu Mosfellsbæjar, að bærinn fær ekki háa einkunn. Feluleikur virðist vera meira lýsandi fyrir það sem í boði er en gagnsæi. Af hverju stafar það? Hafa kjörnir fulltrúar meirihlutans eitthvað að fela?

Til að lýðræðisleg og opin umræða geti átt sér stað þarf almenningur að hafa aðgang að réttum og læsilegum gögnum. Við viljum tryggja að gegnsæi og rekjanleiki mála verði tryggður. Við viljum taka upp raunverulega opna stjórnsýslu því það er almannahagur. Við viljum líka stuðla að opinniv umræðu því stjórnsýslan og stjórnmálamennirnirv eiga ekki að hafa neitt að fela fyrir fólkinu sem kaus það til þjónustu.

Birta Jóhannesdóttir & Soffía Alice Sigurðardóttir

Pin It on Pinterest

Share This