Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir Mosfellsbæ, lagði Íbúahreyfingin m.a. til að bæjarfélagið færi kerfisbundið í að skipta tölvukerfum sínum yfir í opinn hugbúnað, en með því má spara ótaldar milljónir árlega.
Sparnaðurinn nær ekki bara til bæjarfélagsins, heldur sparar þessi aðgerð gjaldeyri og fjárfestingar hjá íbúum Mosfellsbæjar með börn á skólaaldri. Opinn hugbúnaður er einnig atvinnuskapandi innanlands.
Ekki er minnst á þetta í fjárhagsáætlun bæjarins, haldið er áfram að fjárfesta í dýrum hugbúnaði í stað þess að nota sambærilegann búnað sem kostar ekkert og er öllum aðgengilegur.
Íbúahreyfingin hefur ítrekað bent á þessa sparnaðarleið, fyrir nokkru var reynt að innkalla tölvu sem Íbúahreyfingin hefur afnot af í þeim tilgangi að uppfæra hugbúnað sem á henni er, en vart hefur verið töluverðra vandræða hjá öðrum fulltrúum í bæjarráði og bæjarstjórn sem ekki nota opinn hugbúnað.. Íbúahreyfingin mótmælti þessu og hefur sett upp opinn hugbúnað á þessa tölvu og með því sparað hugbúnaðarleyfi fyrir sem hugsanlega nemur tugum þúsunda. Engin vandamál hafa komið upp við notkun á henni.
Það er trúlega minni breyting fyrir fólk að skipta úr Office 2003 yfir í OpenOffice, sem er opinn og frjáls hugbúnaður, heldur en að fara yfir í Office 2007, en við gengum lengra og skiptum úr Windows yfir í Ubuntu.
Við hvetjum íbúa til þess að aðstoða okkur við að þrýsta á að bæjarfélagið og skólar taki upp opinn hugbúnað.
Að lokum hvetjum við íbúa til þess að taka þátt í starfi og baráttu Íbúahreyfingarinnar fyrir opinni stjórnsýslu, gagnsæi og auknu íbúalýðræði.

Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar,
jonb@ibuahreyfingin.is

Greinin birtist í Mosfellingi 24.febrúar 2011

Pin It on Pinterest

Share This