Bréf Hildar Margrétardóttur til bæjarráðs vegna óviðeigandi hegðunar nefndarmanns á 1325. fundi bæjarráðs:
Mér var illa misboðið á síðasta bæjarráðsfundi þar sem ég sat sem varamaður fyrir fulltrúa okkar í Íbúahreyfingunni. Hegðun nefndarmanns meirihlutans var með engu sæmandi á vettvangi bæjarráðs.
Á það skal bent að sá trúnaður sem ríkir á slíkum fundum á við um þau mál sem til umfjöllunar eru á fundinum en ekki um hegðun kjörinna fulltrúa eða eins og segir í 28. gr. sveitarstjórnarlaga: „Sveitarstjórnarmenn skulu gæta trúnaðar um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.”
Varðandi trúnað á milli sveitarstjórnarmanna þá segir í leiðbeiningum frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga
„Að vera í sveitarstjórn. Hlutverk og ábyrgð sveitarstjórnarmanna”:
Meginreglan er sú að sveitarstjórn á að starfa fyrir opnum tjöldum og það er æskilegt að kjörnir fulltrúar taki þátt í opinberri umræðu um þau mál sem eru til meðferðar í sveitarstjórn. Það þarf þó að ríkja ákveðinn trúnaður milli kjörinna fulltrúa þannig að þeir eigi ekki á hættu að verða úthrópaðir opinberlega vegna ummæla í hita leiksins. Birting slíkra ummæla, sem þjónar ekki málefnalegum tilgangi, hefur neikvæð áhrif á umræður og samstarf innan sveitarstjórnar. Almenna reglan er sú að nefndarfundir séu lokaðir en sveitarstjórnarfundir séu opnir almenningi. Sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum þegar slíkt telst nauðsynlegt vegna eðli málsins, sbr. 16. gr. svstjl. Þá vaknar sú spurning hvort það ríki þagnarskylda um allt sem rætt er fyrir lokuðum dyrum. Svo er ekki, það er eingöngu þagnarskylda um þau atriði sem eru þess eðlis að trúnaður á að ríkja um þau. Almenna viðmiðunin er að þátttakendur í lokuðum fundum eiga rétt á því að ummæli þeirra séu ekki birt eða það sé ekki vitnað opinberlega í þau, nema með þeirra samþykki. Það á að ríkja trúnaður um umfjöllunina sem slíka, en ekki um hvaða mál sé að ræða og ákvörðunina og rökstuðning fyrir henni. Sömuleiðis má upplýsa um afstöðu hvers og eins. Meirihlutinn í sveitarstjórn getur ekki lagt þagnarskyldu á fulltrúa í nefnd eða sveitarstjórn. Það að gögn séu stimpluð sem trúnaðarskjöl hefur ekki sjálfstætt gildi sem slíkt, heldur leiðbeiningargildi fyrir kjörna fulltrúa. Það þarf alltaf að líta til þess hvort um raunverulega trúnaðarupplýsingar sé að ræða lögum samkvæmt.
Eins og fram kemur í textanum um mikilvægi trúnaðar ríki á milli kjörinna fulltrúa. Ef að það er vilji meirihlutans í Mosfellsbæ að slíkur trúnaður ríki er mikillvægt að fundarmenn sýni hver öðrum tillitssemi og virðingu í allri umræðu. Með hegðun sinni á fundi bæjarráðs er áðurnefndur fulltrúi búin að brjóta allar forsendur fyrir slíkum trúnaði og hegðun hans á fundinum má fjalla um á almennum og opinberum vettvangi.
Samkvæmt 2. gr. siðaregla kjörinna fulltrúa hjá Mosfellsbæ
Í störfum sínum eru kjörnir fulltrúar bundir af lögum, reglum og samþykktum Mosfellsbæjar, sem og sannfæringu sinni. (Þeir skulu í störfum sínum og í umræðum um málefni Mosfellsbæjar stuðla að og viðhafa orð og athafnir sem samrýmast geti góðum mannlegum samskipum.)
Einnig stendur í sömu grein:
Kjörnir fulltrúar gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls.
Ég vil koma eftirfarandi á framfæri við bæjarráð:
Formaður bæjarráðs á að veita nefndarmanni áminningu ef hann hefur uppi óviðeigandi hegðun samkvæmt reglum um fundarsköp. Það gerðist ekki á þessum fundi. Ég talaði við formanninn einslega og bað hann um að veita nefndarmanni áminningu um að hegðun hans væri óviðeigandi. Það var gert eftir að fundi var slitið og þá sem almenn áminning til allra nefndarmanna. Ekki sá nefndarmaður ástæðu til að biðjast afsökun á hegðun sinni eftir almenn tilmæli formanns.
Ég leyfi mér að vitna í samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar:
15.gr um fundarsköp og ritun fundargerða
b. Vald forseta.
Skylt er bæjarstjórnarmanni að lúta valdi forseta í hvívetna varðandi það að gætt sé góðrar reglu. Ef bæjarstjórnarmaður ber aðra menn brigslum eða víkur verulega frá umræðuefninu skal forseti víta hann. Ef bæjarstjórnarmaður er víttur tvisvar á sama fundi getur forseti lagt til við bæjarstjórn að hann verði sviptur málfrelsi það sem eftir er fundar. Skal sú tillaga afgreidd umræðulaust. Ef bæjarstjórnarmaður hlýðnast ekki úrskurði forseta eða almenn óregla kemur upp á fundi skal forseti gera hlé um stundarsakir eða ef nauðsyn krefur fresta eða slíta fundi. Ef áheyrandi á sveitarstjórnarfundi raskar fundarfriði getur forseti vísað honum úr fundarsal. Leyfi forseta þarf til að taka myndir í fundarsal bæjarstjórnar.
Ég leyfi mér einnig að benda á að aðrir sem hafa gegnt hlutverk formanns, hvort sem er í bæjarráði eða bæjarstjórn hafa látið það viðgangast að nefndarmenn hagi sér á óviðeigandi hátt á fundum, óáreitt og án áminningar.
Ef nefndarmaður lítillækkar með einhverjum hætti annan nefndarmann í skjóli þess að allir eru bundnir trúnaði um hvað fer fram á fundinum er það skýrt brot á þeim gildum sem Mosfellbær stendur fyrir, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja, og samþykktum Mosfellsbæjar. Það hlýtur að teljast stór þáttur í að þessum gildum sé fylgt að nefndarmaður og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins sýni fordæmi í hegðun og verki eða eins og segir í lokaskýrslu stefnumótunar fyrir Mosfellsbæ frá því í apríl 2008 þegar grunngildin voru tekin upp:
„Það er alveg ljóst að það skjal sem hér er kynnt hefur ekki mikla þýðingu nema að bæjaryfirvöld og bæjarbúar í Mosfellsbæ vinni áfram með þær áherslur sem settar eru fram.”
Allt síðasta kjörtímabil átti sér stað eineltishegðun í garð fulltrúa Íbúahreyfingarinnar af hálfu nefndarmans og annarra kjörinna fulltrúa sem sátu í bæjarstjórn og bæjarráði. Hún kristallast í því uppþoti sem varð eftir að fulltrúinn, sem sat fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar sem varamaður í bæjarstjórn og bæjarráði, á þessu kjörtímabili, sá sér ekki annað fært en að segja af sér vegna ljótra aðdróttana sem áttu sér stað á bæjarráðsfundi nr. 1311, þann 20. júní 2017. Að því sem ég best veit hefur aldrei borist afsökunarbeiðni til fulltrúans vegna þessa. Enn eru nefndarmenn að skemmta sér yfir þessari uppákomu fyrir bæjarstjórnarfundi í samræðum sín á milli.
Ég hef setið sem áhorfandi í bæjarstjórn og heyrt lítilslækkandi orðræðu sem á sér stað gagnvart fulltrúum Íbúahreyfingarinnar, hvort sem er á fyrsta kjörtímabili okkar í Íbúahreyfingunni eða því sem nú stendur yfir. Þetta er óheilbrigt starfsumhverfi fyrir alla og samkvæmt minni upplifun þá ríkir eineltismenning í garð fulltrúa Íbúahreyfingar sem er langt frá bæði því sem kemur fram í leiðbeiningum SÍS um hegðun sveitarstjórnarmanna og alls ekki í samræmi við hin háleitu markmið sem sett voru fyrir bæinn í stefnumótun 2008 með gildunum fjórum.
Eineltisthegðun þess sem valdið hefur og meðvirkni annara nefndarmanna sést á því að nefndarmenn taka þátt í að smætta, uppnefna eða með öðrum leiðum tala illa um, og til, fulltrúa Íbúahreyfingarinnar. Starfsmenn Mosfellbæjar og embættismenn fara ekki varhluta af þessu, en samkvæmt trúnaðarsamtölum við starfsmenn Mosfellsbæjar fá þeir ósjaldan að heyra frá umræddum nefndarmanni hversu óhæfir fulltrúar Íbúahreyfingarinnar séu til að gegna skyldum sínum.
Ég leyfi mér í ljósi þessa að vitna hér í skilgreiningu um einelti á vinnustað: Skilgreining:
„Þeir sem leggja aðra í einelti gera það yfirleitt af ásettu ráði. Um er að ræða andfélagslegt ofbeldi er birtist sem þrálát árátta, knúin af einbeittum vilja. Markmið gerandans er fyrst og fremst það að sýna völd sín með því að meiða, lítillækka og brjóta fórnarlömb sín á bak aftur”.
(sjá nánar: http://www.uttekturlausn.is/einelti-a-vinnustad.html )
Með bréfi þessu vil ég vekja athygli nefndarmanna á þeirri ósæmandi hegðun sem átti sér stað á fundi bæjarráðs nr. 1325 og að í framhaldi af bréfi þessu endurskoði nefndarmenn allir og rýni í hvernig samskipti séu á vettvangi bæjarráðs og bæjarstjórnar og breyti starfsháttum sínum til betri vegar. Við teljum okkur ekkert undanskilin í þeirri endurskoðun. Nú þegar samfélagið hefur á svo margan hátt brotist undan eineltishegðun er kominn tími til að skoða hana í stjórnmálamenningu bæjarfélagsins okkar. Ef sveitarstjórnin getur ekki farið á undan með góðu fordæmi er varla hægt að ætlast til þess að aðrir bæjarbúar beri virðingu fyrir gildum Mosfellsbæjar, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.
Virðingarfyllst,
Hildur Margrétardóttir
Formaður Íbúahreyfingarinnar
Álafoss, laugardagur 14. október 2017
Ummæli Stefáns Ómars Jónssonar fyrrum framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs í Mosfellsbæ í kjölfar birtingar bréfsins:
Í tilefni þessara skrifa.
Takk Hildur fyrir að deila þessari meintu óviðeigandi hegðun nafndarmanns með okkur.
Að upplifa það að vera beittur einelti er ekki eitthvað sem halda ber trúnað um,
heldur þvert á móti er það réttur þess sem finnst hann vera beittur einelti að
upplýsa um það ástand og krefjast þess að á því verði tekið.
Gildir þetta um alla vinnustaði þar með talinn vinnustaðinn “bæjarráð” þar
sem fulltrúar almennings koma saman til þess að ráða ráðum sínum eftir leikreglum lýðræðisins.
“Umræddur nefndarmaður”.
Allir þeir sem sitja nefndarfundi hvort heldur þeir eru
kjörnir fulltrúar eða embættismenn eins og t.d. bæjarstjórinn, sem hefur seturétt á fundum bæjarráðs, eru seldir undir almennar háttsemisreglur sem m.a. eru tryggðar í siðareglum, mannauðsstefnu og gildum Mosfellsbæjar um jákvæðni, virðingu, framsækni og umhyggju, en samkvæmt þessum reglum er einelti fráboðið.
Af fréttum má ráða að “umræddum nefndarmaður” sé sjálfur bæjarstórinn Haraldur Sverrisson. Það gerir málið enn alvarlegra þar sem bæjarstjórinn er embættismaður, fulltrúi og þjónn almennings sem hefur það hlutverk eitt að þjóna bæði bæjarbúum og kjörnum fulltrúum af alúð, auðmýkt og samviskusemi, en ekki vera neins konar valdboðandi eða drottnari á
fundum bæjarráðs, þar sem hann situr sem gestkomandi.
Stefán Ómar Jónsson
fyrrum framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs Mosfellsbæjar.