Fundarstjóri, ágætir íbúar.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ býður nú fram í fyrsta sinn.  Þó að saga Íbúahreyfingarinnar sé ekki löng má segja að aðdragandinn að stofnun hennar eigi sér djúpar rætur.

Þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu mynduðust ekki á einni nóttu.  Mosfellingar, líkt og þjóðin öll, þurfa nú að takasta á við afleiðingar hrunsins og tilvistarkreppu þeirra afla sem ábyrgð á því bera.  Kosningarnar á laugardaginn eru liður í því uppgjöri.

Rætur Íbúahreyfingarinnar liggja í þeirri sannfæringu að meira af því sama sé íbúum óboðlegt.  Að breytinga á kerfinu sem nú er fallið um sjálft sig sé þörf.  Ekki dugar að endurreisa það gamla með fúnum spýtum.

Á fjögurra ára fresti er lýðræðið virkt.  Þá fáum við íbúarnir náðasamlegast að kjósa um hverjum við felum umboð okkar til að sýsla með sameiginlega sjóði og ýmis völd því samfara.  Málið er brýnt og það er eftir þó nokkru er að slægjast, líkt og dæmin hafa sannað.

Þess vegna fara gömlu góðu flokkarnir í sparifötin fyrir kosningar, dikta upp slagorð, grilla pylsur og bjóða börnunum okkar í hoppikastala.  Síðan hrósa þeir sér af því sem þeir hafa gert vel eða gagnrýna það sem hinir hafa ekki gert nógu vel.

Um eigin mistök tala flokkarnir helst ekki.  Allavega ef þeir komast hjá því og það þykir heldur ekki snjallt að hrósa öðrum flokkum, nema menn séu að stíga í vænginn við þá til að kaupa sér aðgang að völdum í framtíðinni.

Verst af öllu þykir flokkunum að þurfa að svara opinberlega erfiðum spurningum frá íbúum og fjölmiðlum.

Svo er kosið.  Stjórnmálamennirnir skipta kannski um hlutverk, kannski ekki – en leikritið heldur áfram.

Ég hef stundum líkt þessu við lestarferð þar sem atkvæðaseðillinn er miði.  Því miður stoppar lestin ekki fyrr en eftir fjögur ár og þá er hún kannski komin eitthvað allt annað en þú ætlaðir að fara.

Langar okkur að hafa þetta svona áfram eða ætlum við að breyta þessu?

Inntakið í áherslum Íbúahreyfingarinnar felst í lýðræðisumbótum, fagmennsku og réttlæti.

Við viljum að kosningar fari fram um einstök mál óski 10% kosningabærra íbúa eftir því, eða tveir fulltrúar í bæjarstjórn.  Það þarf ekki að fjölyrða um hversu gríðarlega mikið aðhald umrætt fyrirkomulag myndi veita kjörnum fulltrúum.  Þá gætu íbúar tekið málin í sínar hendur þegar íbúar telja ástæðu til.  Stoppað lestina á miðri leið og breytt um stefnu.

Við gætum til að mynda kosið um skipulagsmál, stærri fjárveitingar og fleira.

Viljum við sameiginlegt menningarhús og kirkju?  Og ef svo er, hvar viljum við staðsetja mannvirkið?

Viljum við setja 132 milljónir í byggingu í golfskála á næstu þrem árum á sama tíma og verið er að skera niður grunnþjónustu eða viljum við breytta forgansröðun?

Viljum við að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að auðlindir innan bæjarmarka verði aftur á sameiginlegu forræði Mosfellinga áður en aðilar á borð við Magma Energy banka upp á?

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur ekki svör á reiðum höndum við þessum spurningum.  Hún er hinsvegar farvegur til breytinga á forsendum íbúanna sjálfra.  Því þegar stórt er spurt er lýðræði svarið.

Íbúahreyfingin boðar aukna valddreifingu.  Við viljum skilja á milli bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa með faglegri ráðningu bæjarstjóra á hóflegum kjörum.

Nefndir á vegum bæjarins ættu að vera faglega skipaðar.  Þannig verði best stuðlað að viðunandi afgreiðslu mála í stað þess að flokkspólitískt þras taki völdin, eins og stundum vill gerast.

Við teljum að kjörnir fulltrúar eigi ekki að sitja lengur en tvö kjörtímabil.  Þannig verði eðlileg endurnýjun tryggð og stuðlað gegn því að vald safnist fyrir á fáar hendur til lengri tíma.

Fjölmargir horfa fram á mjög erfiða tíma næstu misserin.  Samkvæmt nýlegri skýrslu Seðlabankans eru tæplega 40% heimila landsins tæknilega gjaldþrota.  Afleiðingar þessa eru að fólk getur ekki selt eignir sínar og er bundið átthagafjötrum.  Um 65% ungra heimila eru í þessari stöðu.

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að eitt af hverjum fjórum heimilum í landinu þarf á frekari aðstoð að halda en nú þegar hefur verið veitt.  Gróflega áætlað gerir það um 500 fjölskyldur í Mosfellsbæ en tæplega 400 Mosfellingar eru á atvinnuleysiskrá.

Framhjá þessari staðreynd getum við ekki litið.  Íbúahreyfingin vill huga sérstaklega að stöðu atvinnuleitenda og tekjulægri hópa með áherslu á menntun og velferð barna.  Við megum aldrei sætta okkur við að börn líði skort eða upplifi mismunun vegna fátæktar.

Mosfellsbær ætti að beita sér formlega í baráttunni við skuldavanda heimila og fyrirtækja.  Þar er um risavaxið hagsmunamál að ræða fyrir sveitarfélagið í heild sinni.

Góðir fundarmenn.

Það er mikilvægt að við tökum ábyrgð á lýðræðislegri framtíð Mosfellsbæjar.

Fyrir 2500 árum varaði heimspekingurinn Plató við því að refsingin við því að taka ekki þátt í stjórnmálum væri að vera stjórnað af verra fólki en manni sjálfum.

Höfum það í huga á laugardaginn. Því þegar við kjósum Íbúahreyfinguna erum við að kjósa með okkur sjálfum.  X-M.

Pin It on Pinterest

Share This