Þann 16. júní var haldinn fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í Mosfellsbæ. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ, sem nú er næst stærsta stjórnmálaaflið í bænum, gerðu að tillögu sinni að fylgt yrði mannauðsstefnu Mosfellsbæjar við ráðningu bæjarstjóra og að starfskjör hans yrðu einnig endurskoðuð. Þessi tillaga var felld af meirihluta Sjálfstæðismanna og Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs sem lögðu til að Haraldur Sverrisson yrði ráðinn bæjarstjóri.
Íbúahreyfingin lagði fram bókun sem hægt er að lesa í heild á heimasíðu Íbúahreyfingarinnar en þar er vísað í mannauðstefnuna en í henni segir: „Starfsmenn Mosfellsbæjar eru ráðnir á grundvelli reynslu, hæfni, menntunar og hæfileika til að takast á við starfið. Laus störf skulu auglýst á opinberum vettvangi og til að tryggja sanngirni og fagmennsku skulu allar ráðningar hjá Mosfellsbæ byggjast á samræmdu ráðningarferli. Kjör starfsmanna taka mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.“
Í bókuninni kemur einnig fram að: „Ætlun meirihlutans að ráða bæjarstjóra á pólitískum forsendum, án auglýsingar, gengur þvert gegn mannauðsstefnu Mosfellsbæjar. Það er slæmt fordæmi og vanvirðing við faglega stjórnsýslu.“
Ein af megin áherslum Íbúahreyfingarinnar fyrir kosningar var krafan um aukið gagnsæi og að „fundir nefnda, bæjarráðs og bæjarstjórnar verði sendir út á netinu og hljóðskrár aðgengilegar á netinu.“ Í samræmi við þessar áherslur réðst Íbúahreyfingin í þá nýbreytni að taka upp fund bæjarstjórnar og hefur nú birt hljóðskrár fundarins á heimasíðu sinni.
Nánari upplýsingar hjá Birtu Jóhannesdóttur, 865 6321, og Þórði B. Sigurðssyni, 862 2575.