Íbúahreyfingin lagði fram breytingatillögu við fjárhagsáætlun 2015 – 2018 í bæjarráði 30. október sl. Við tókum í upphafi þann pól í hæðina að taka mið af því sem við yrðum áskynja í heimsóknum bæjarráðs í stofnanir og fyrirtæki Mosfellsbæjar nú um miðjan nóvember. Tillögur Íbúahreyfingarinnar eru því að hluta afrakstur samtals við starfsmenn sveitarfélagsins. Nokkrar af þessum tillögum hafa verið ræddar áður í nefndum og ráðum og sumar jafnvel verið samþykktar í bæjarstjórn. Þessum verkefnum hefur hins vegar ekki fylgt fjármagn og gerir Íbúahreyfingin að tillögu sinni að bæjarstjórn bæti núr úr því .
Við í Íbúahreyfingunni settum í forgang að byggja upp innviði sveitarfélagsins og gera Mosfellsbæ með því að betri bæ til að búa í.

Mötuneyti við efri deild Varmárskóla

Fyrsta og fjárfrekasta tillaga Íbúahreyfingarinnar felst í að reisa mötuneyti við eldri deild Varmárskóla.

Aðstaðan í dag er þannig að báðar deildir skólans borða í eldri deild, samtals um sexhundruð og sextíu börn/okt. 2014. Húsnæðið er gluggalaust og rými lítið undir voldugum stiga skólans. Stærð á húsgögnum hæfir ekki hávaxnari nemendum. Skipulagið er þannig að börnin borða í nokkrum hollum og hefur hvert barn í yngri deild um sextán mínútur til að standa í biðröð, borða matinn sinn og ganga frá eftir sig. Á mannamáli heitir þetta að börnunum sé gert að skófla upp í sig matnum.

Til hliðar við mötuneytið eru kennslustofur fyrir verkmenntagreinar. Þar fer fram kennsla á meðan að yngri deild er að borða. Hávaðinn er ærandi og hann truflar kennslu. Staðsetning mötuneytisins er því mjög óheppileg. Hér er því um að ræða ófremdarástand sem við í Íbúahreyfingunni teljum brýnt að laga, bæði fljótt og vel.

Þess má geta að sú sem hér talar gerði aðbúnað í mötuneyti Varmárskóla að umræðuefni á fundi bæjarstjórnar 22. október sl.

Tillaga Íbúahreyfingarinnar felst sem sé í því að reist verði viðbygging við efri deild Varmárskóla. Við leggjum til að þarfagreining, hönnun hússins og frekari umræða í nefndum og ráðum fari fram á næsta fjárhagsári 2015 og húsið verði síðan byggt árið 2016. Mötuneyti sem annað getur 7-800 hæfi rekstur að hausti 2016.

Hvað tækjabúnað í eldhúsi varðar er þar einungis ein þvottavél sem sinna á 660 börnum, aðeins 3 kæliskápar og þar til fyrir stuttu mátti starfsfólk sætta sig við að standa í gufubaði tímunum saman þar sem engin loftræsting var til staðar. Það mál hefur verið leyst og úr sögunni. Eftir stendur að það ber brýna nauðsyn til að kaupa þvottalínu fyrir eldhúsið og kælieiningu sem annar þörf því mikið af matvælum fer til spillis vegna aðstöðuleysis. Útigeymsla sem er að verða tilbúin annar ekki þeirri þörf.

Ljóst er að skólastjórnendur galdra ekki fram úr ermi sinni peninga fyrir tækjakaupum. Það er á valdi bæjarstjórnar að sjá til þess að skólinn geti komið upp þessum tækjum og því leggjum við fram tillögu um að fjárhagsáætlun 2015 feli í sér aukið fjármagn fyrir eldhús Varmárskóla til tækjakaupa.

Skv. lauslegum útreikningum arkitekts er kostnaður ársins 2015 á að giska kr. 4 250 000 og á árinu 2016 um kr. 50 000 000 án vsk.

Þess má að lokum geta að nokkrir þættir draga úr kostnaði s.s.:

•          Lóðin er þegar fyrir hendi

•          Allar lagnir ættu að vera til staðar

•          Funkjónin er einföld, stór salur og eldhús

•          Engar snyrtingar, ekkert anddyri (útihurð)

2. Gerð langtímaáætlana um uppbyggingu íþróttamannvirkja

Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að ráðist verði í það brýna verkefni á fjárhagsárinu 2015 að gera langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ þar sem tekið er mið af áætlaðri fjölgun íbúa en hún er sögð vera um 10% á næstu fjórum árum.

Okkur hefur verið tjáð að þetta verkefni sé núþegar hafið og leggur Íbúahreyfingin því til að tillögunni verði vísað til íþrótta- og tómstundanefndar, fræðslusviðs og bæjarráðs sem fylgi því eftir að langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ verði tilbúin í byrjun fjárhagsáætlunargerðar næsta vor.

3. Efling almenningsíþrótta

Tillaga Íbúahreyfingarinnar felst í því að bæta aðstöðu í Mosfellsbæ til almenningsíþrótta sem ekki krefjast greiðslu félagsgjalda með því að koma fyir bekkjum og æfingatækjum á vinsælum göngu-, hlaupa- og hjólaleiðum.

Íbúahreyfingin hefur ljáð máls á þessari hugmynd í íþrótta- og tómstundanefnd. Viðbrögð nefndarmanna voru jákvæð og er málið nú í farvegi.

Til að svona svæði nýtist þarf að staðsetja þau í byggð þar sem fólk stundar göngur og hlaup dags daglega. Verkefnið gæti verið mikil lyftistöng fyrir heilsueflandi samfélag. Það er mjög skemmtilegt og það er hægt að útfæra það á mjög skapandi hátt. Á Íslandi eru til fyrirtæki sem sérhæfa sig í að hanna og smíða leik- og æfingatæki fyrir útisvæði. Íbúahreyfingin sér líka fyrir sér að Ásgarður geti tekið þátt í þessu verkefni.

Íbúahreyfingin gerir því að tillögu sinni að bæjarstjórn gefi verkefninu byr undir báða vængi með því að eyrnamerkja því ákveðna upphæð til 6 ár í fjárhagsáætlun.

Við sjáum fyrir okkur að á komandi fjárhagsári verði klárað að staðsetja þau svæði sem til greina koma, velja æfingatæki og hanna æfingasvæðin. Framkvæmdir hæfust síðan árið 2016. Kostnaður vegna undirbúnings er áætlaður um 500 þúsund á fjárhagsárinu 2015 og árlegur kostnaður verður um kr. 2 000 000 á ári til ársins 2020.

Fróðlegar rannsóknir: http://www.openspace.eca.ed.ac.uk/researchteam_cthompson.php

Catharine Ward Thompson is Research Professor of Landscape Architecture at Edinburgh College of Art and the University of Edinburgh.

4. Göngu- og hjólastígar

Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að hafist verði handa við að hanna og leggja göngu- og hjólastíg frá (1) Reykjum í Reykjahverfi að endastöð strætó við Reykjaveg, (2) frá Reykjalundi að stíg í útjaðri iðnaðarhverfis á Teigum og (3) frá Hlíðartúni að Vesturlandsvegi við nýja slökkvistöð. Sú sem hér talar óskaði eftir umræðu um ástand hjóla- og göngustíga í Reykja- og Teigahverfi í umhverfisnefnd þann 25. október 2012. Í því sambandi var sérstaklega rætt um óskir íbúa í hverfinu um að leggja stíg frá Reykjum að endastöð strætó við Reykjaveg.

Á fundinum ítrekaði umhverfisnefnd mikilvægi þess að “viðhald og skipulag hjóla- og göngustíga væri í lagi og vísaði erindinu til umræðu í skipulagsnefnd og til umhverfissviðs. “

Skipulagsnefnd tók erindið til umfjöllunar 27. nóvember 2012 og fól umhverfissviði að taka saman nánari upplýsingar varðandi stöðu skipulags og ástand hjóla- og göngustíga á svæðinu.

Jóhanna bæjarverkfræðingur lét ekki á sér standa og 3. desember 2012, þ.e. nákvæmlega fyrir 2 árum, leit umsögn hennar dagsins ljós en þar segir m.a.: “Varðandi gangstétt frá enda Reykjavegar og upp að Reykjahvol þá er því til að svara að ekki liggur fyrir deiliskipulag af umræddum vegarkafla en vonir standa þó til að sá kafli komist á kortið um leið og uppbygging hefst að nýju við Reykjahvol.”

Nú er uppbygging hafin við Reykjahvol og vegagerð meira að segja lokið. Gífurleg umferð var í sumar og haust í tengslum við þessar framkvæmdir og þörf fyrir göngu- og hjólastíg aldrei verið meiri. Á þessari leið er mikil hætta á slysum og sama máli gegnir um leiðina á milli Reykjalundar og Teigahverfis.

Í ljósi þessa gerir Íbúahreyfingin að tillögu sinni að stígarnir verði deiliskipulagðir og hannaðir á fjárhagsárinu 2015 og að hafist verði handa við að leggja stígana á árinu 2016 og því ljúki 2018.

5. Frárennslislekar í ár, sjó og vötn stöðvaðir

Tillaga Íbúahreyfingarinnar felur í sér að gerð verði gangskör að því að leita uppi og uppræta uppsprettur saurgerlamengunar í ám, sjó og vötnum í Mosfellsbæ. Beina þarf sjónum sérstaklega að rangtengingum frárennslis frá íbúðarhúsum og atvinnustarfsemi austan Vesturlandsvegar, í Mosfellsdal og Töngum. Einnig verði girt fyrir að affallsvatns frá atvinnustarfsemi renni í ræsi og þaðan óhreinsað í viðtaka.

Þetta mál er búið að veltast fram og tilbaka í umhverfisnefnd frá árinu 2011 en þá leit skýrsla HeKjós um saurgerlamengun í Leiruvogi dagsins ljós. Í kjölfarið komu svo skýrslur um ástand vatnsfalla í Mosfellsdal, Varmár og ýmissa lækja í sveitarfélaginu. Á niðurstöðum mátti ljóst vera að grípa þyrfti til markvissra aðgerða.

Endurbætur hafa hins vegar gengið á hraða snigilsins. Öllum sem ég hef talað við ber saman um að það þurfi að ganga í hús og leita að uppsprettum meinsins. Frá því var líka greint í umhverfisnefnd. Það ber líka öllum saman um að aðgerðir séu ekki ókeypis og að brýnt sé að Mosfellsbær veiti meira fé til verkefnisins.

Í ljósi þessa gerir Íbúahreyfingin að tillögu sinni að í fjárhagsáætlun næstu ára verði gert ráð fyrir nægu fé til að uppræta saurgerlamengun í ám, sjó og vötnum í Mosfellsbæ.

Íbúahreyfingin telur að verkefnið gæti hentað eldri ungmennum í sumarvinnu hjá Mosfellsbæ en fagleg leiðsögn er mikilvæg. Þess má geta að ungmennin koma hvergi nærri neinum sóðaskap.

Íbúahreyfingin gerir ráð fyrir kr. 1 500 000 á fjárhagsárinu 2015. Kostnaðargreining á framhaldinu er verkefni umhverfissviðs og leggur Íbúahreyfingin til að þeim hluta verði vísað til úrvinnslu og umræðu um fjárhagsáætlun 2016.

6. Umhirða á útisvæðum og náttúruvernd

Eftirfarandi tillögur Íbúahreyfingarinnar lúta að umhirðu útisvæða og náttúruvernd.

a. Eyðing ágengra plantna

Í fyrsta lagi er lagt til að hafist verði handa við að eyða ágengum framandi plöntum sem draga úr líffræðilegum fjölbreytileika á plönturíki Mosfellsbæjar, s.s. lúpínu, skógarkerfli og bjarnarkló í byrjun sumars 2015. Árbakkar njóti forgangs þar sem fallvötn eiga stóran þátt í dreifa fræjum illgresis.

Þessi tillaga á að baki langt ferðalag í nefndum og ráðum Mosfellsbæjar sl. 3 ár. Umhverfissvið hefur samið umsögn, garðyrkjustjóri hefur samið umsögn og bæjarstjórn samþykkt þá tillögu að hefjast handa. Allir eru s.s. sammála um að ráðast í verkið en það strandar á einu og það eru peningar.

Kortlagning Landgræðslunnar á útbreiðslu ágengra plantna er vissulega góð og gild en hún kemur ekki í veg fyrir að hafist verði handa við að eyða ofangreindum tegundum á stöðum eins og við árbakka.

Íbúahreyfingin gerir því að tillögu sinni að í fjárhagsáætlun 2015 til 2018 verði árlega gert ráð fyrir ákveðinni upphæð sem nægir til að greiða 10 krökkum í vinnuskóla Mosfellsbæjar eða skátunum í laun fyrir tveggja vikna törn í lúpínuskurði í grennd við vatnsföll í Mosfellsbæ fyrri hluta júní.

Áætlaður kostnaður vegna vinnulauna og verkstjórar er kr. 400 000.

b. Bakkaviðgerðir og umhirða stíga við Varmá

Í öðru lagi leggur Íbúahreyfingin til að viðgerðir hefjist á syðri bakka Varmár frá Reykjalundarvegi að Blómvangi á fjárhagsárinu 2015. Samhliða verði malarstígurinn meðfram ánni lagfærður með efni sem hæfir ljósum grágrýtisgrunninum í og við ána.

Um er að ræða fyrsta áfanga fimm ára verkefnis sem tekur til Varmársvæðisins frá friðlýstum ósum að Húsadal.

Þetta verkefni á sér líka langa sögu í nefndum og ráðum Mosfellsbæjar. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem ég lagði til að sett yrði á fjárhagsáætlun 2013, ásamt því að eyða ágengra plöntum o.fl.

Í umsögn umhverfissvið frá 3. desember 2012 segir: “Lagt er til að skipulagsnefnd geri það verkefni að sínu að vinna að undirbúningi endurbóta stígs meðfram Varmá og láti í því skyni vinna deiliskipulag af stíg meðfram Varmá á kaflanum frá Álafosskvos upp að Syðri- Reykjum.”

Skipulagsnefnd tekur undir minnisblað framkvæmdastjóra umhverfissvið: “þar sem m.a. er lagt til að unnið verði deiliskipulag fyrir stíg meðfram Varmá sem verði grundvöllur aðgerða til endurbóta.” Nefndin óskar líka eftir að unnið verði áfram í málinu í samræmi við minnispunkta umhverfissviðs.

Í bókun bæjarstjórnar 23. janúar 2013 segir síðan: “Afgreiðsla 334. fundar skipulagsnefndar samþykkt á 597. fundi bæjarstjórnar með sjö atkvæðum.”

Frá þessum tíma eru nú liðin tæp 2 ár. Við hljótum að gera þá kröfu að samþykktum bæjarstjórnar sé framfylgt og þess vegna gerir Íbúahreyfingin að tillögu sinni að gengið verði í það mál að deiliskipuleggja viðgerðir á bökkum Varmár og lagfæringar á stíg samhliða því. Um er að ræða langtímaverkefni sem mun hafa veruleg fagurfræðileg áhrif á ásýnd sveitarfélagins, auk þess að hefja Mosfellsbæ menningarsögulega séð upp á hærra plan.

Kostnaðarmat gerir ráð fyrir að í verkefnið verði veitt kr. 3 000 000 á ári næstu 5 árin.

c. Náttúruverndaráætlun

Í þriðja lagi leggur Íbúahreyfingin til að hafin verði vinna við gerð náttúruverndaráætlunar fyrir Mosfellsbæ sem verði hluti af svæðis- og aðalskipulagi. Áætlunin er liður í að efla umhverfisvitund í tengslum við skipulag og framkvæmdir og stuðla þannig að því að áætlanir og umgengni taki mið af gæðum náttúru og sé í anda sjálfbærrar þróunar.

Þungamiðjan í verkefninu er að kortleggja lífríki og náttúrufar í Mosfellsbæ, s.s. búsvæði fugla- og fiska, gróður, landslag, votlendi, jarðhitasvæði, uppsprettur ferskvatns o.fl. Einnig að semja reglur um umgengni framkvæmdaaðila á náttúrusvæðum og fá til þess leiðsögn til þess bærrar stofnunar.

Umhverfisnefnd hefði umsjón með verkefninu og spurning hvort hægt væri að útvista því til nemenda í umhverfis- og náttúrufræðum í FaMos, LbhÍ eða HÍ sem fengju þá eitthvað smávegis fyrir sinn snúð.

Verkefnið er liður í að bæta skipulagsgerð og umgengni við náttúruperlur sveitarfélagsins.

d. Umhverfisfræðsla

1. Fræðsluskilti á gönguleið við Leiruvog

Í fjórða lagi leggur Íbúahreyfingin til að á fjárhagsárinu 2015 verði hafist handa við undirbúning fræðsluskilta um fuglalíf, leirur og fjörugróður á gönguleiðinni meðfram Leiruvogi. Undirbúningsvinna sérfræðinga færi fram á fjárhagsárinu 2015, hönnun og uppsetning vorið 2016.

Kostnaður fælist í að greiða fyrir myndir, texta, hönnun, uppsetningu og undirstöður skilta. Hvert skilti kostar á að giska 1 milljón og gerir tillagan ráð fyrir þremur skiltum með mismunandi áherslur.

2. Umhverfisfræðslukvöld

Í fimmta lagi að haldin verði fræðslukvöld um náttúru og dýralíf að vori og hausti til að efla umhverfisvitund.

Verkefnið er liður í að bæta umhverfisvitund og auka ánægju íbúa og annarra vegfarenda af útivist í Mosfellsbæ.

e. Vöktun friðlýstra svæða – langtímaverkefni

Í sjötta lagi að hafin verði reglubundin vöktun friðlýstra svæða í Mosfellsbæ. Einnig þarf að bæta aðgengi og umhirðu þeirra. Dæmi: Tungufoss og Álafoss.

Íbúahreyfingin lagði til að framkvæmdafé yrði sótt í eftirfarandi útgjaldaliði á boðaðri fjárhagsáætlun:

Uppbyggingu golfvalla seinkað
Vinnu við ævintýragarð seinkað um 2 ár
Framlög til Motomos minnkuð
Hreystivelli v. Varmá seinkað til 2017
Framlög til stikaðra gönguleiða minnkuð 2015 og 2016 en bætt upp 2017 og 2018
Jeppakaupum bæjarstjóra frestað
Yfirvinnutímum bæjarstjóra fækkað um 10
Laun bæjarstjóra lækkuð v fundarsetu á vinnutíma
Föstum yfirvinnutímum yfirmanna fækkað 10

 

Pin It on Pinterest

Share This