Nú eru lög um skráningu á raunverulegum eigendum komin til framkvæmda sem er vel. Eitthvað virðist þó undarlega að lagasetningunni staðið. Á meðan félögum, eins og foreldrafélögum sem eiga lítið undir sér, er gert skylt að gera grein fyrir raunverulegum eigendum eru lögaðilar sem skráðir eru á hlutabréfamarkaði og hafa til þess burði að ráðstafa miklum fjármunum á undanþágu frá skráningu. 

Og hvernig snertir þetta Mosfellinga? 

Starfsmenn fjármálafyrirtækis skráðir raunverulegir eigendum

Sunnubær ehf., félag í vörslu Kviku, á lóðir við Sunnukrika þar sem verið er að reisa heilsugæslustöð. Skv. skráningu á vef fyrirtækjaskrár er búið að skrá raunverulegt eignarhald félagsins og eru það starfsmenn Kviku sem nú sem endranær eru skráðir “raunverulegir eigendur”. Hina raunverulegu eigendur, viðskiptavini Kviku, er hins vegar hvergi að finna á vef fyrirtækjaskrár undir raunverulegum eigendum. Starfsmenn Kviku verða því áfram skjöldur raunverulegra eigenda lóðanna í Sunnukrika.

Raunverulegt eignarhald áfram á huldu

Glufan til að ástunda spillingu, sem lögin eiga að koma í veg fyrir, er sem sagt enn opin. Þetta þýðir að opinberum aðilum, eins og sveitarfélögum, verður áfram heimilt að afhenda her huldufólks lóðir, án þess að upplýsa íbúa um raunverulegt eignarhald. Sú glufa er því enn opin að ráðstafa eignum og verkefnum sveitarfélagsins á ógegnsæjan hátt. Sömuleiðis verður jafn ómögulegt og fyrr að sannreyna pólitísk tengsl og þar með siðferði á bak við viðskipti sveitarfélagsins við lögaðila.
Ekkert útboð á framkvæmdum

Þegar lóðum er ráðstafað til félaga sem þessara tekur við lokað ferli. Eins og í þessu tilviki fela eigendur raunverulegt eignarhald á bak við starfsmenn bankans, auk þess sem ekki þarf að efna til útboðs um framkvæmdirnar o.fl. Vel má vera að til þess hafi leikurinn verið gerður, þ.e. að raunverulegir viðskiptavinir Kviku hafi keypt lóðirnar til að skapa sjálfum sér og/eða vildarvinum sínum verkefni.

Af hverju þessi leynd?

Stóra spurningin er því eftir sem áður sú sama: Af hverju stundar fjölskipuð bæjarstjórn Mosfellsbæjar fasteignaviðskipti við huldufólk? Er einhver ástæða fyrir því? Hvað er það sem þarf að fela?
Sama fyrirkomulag var viðhaft þegar lóðum við Bjarkarholt/Háholt var ráðstafað. Þar var sællar minningar í aðalhlutverki GAMMA sem er fyrirtæki nátengt Kviku. Ef marka má fréttir er eignarhald þess félags að mestu á huldu en þó ljóst að í það mál eru félagar í Sjálfstæðisflokknum margflæktir.

Pin It on Pinterest

Share This