Við fáum tækifæri til þess að kjósa og nýta lýðræðislegan rétt okkar á laugardag 26. maí. Í Mosfellsbæ eru átta listar í framboði og því mikilvægt að kjósendur kynni sér vel fyrir hvað þeir standa og hverju þeir eru líklegir til að áorka. Við í Íbúahreyfingunni og Pírötum teljum að það sé kominn tími á meiriháttar breytingar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Á kjörtímabilinu féll það í hlut Íbúahreyfingarinnar að veita meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna öflugt aðhald. Það gerðum við með vönduðu málefnastarfi og með því að beina sjónum að málaflokkum sem hafa verið aftast í forgangsröðinni frá því að Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda í Mosfellsbæ 2002. Íbúahreyfingin hefur stutt öll góð málefni, án tillits til þess hvaðan þau komu. Við höfum sýnt festu og gert það sem við gátum til að opna umræðu um bæjarmál, oft í óþökk sitjandi meirihluta. Á kjörtímabilinu lét Samfylkingin lítið fyrir sér fara í bæjarstjórn, fylgdi meirihlutanum oft að málum eða sat hjá.

Frá árinu 2006 hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki verið einn á báti. Vinstri græn hafa treyst valdastöðu hans síðastliðin 12 ár, jafnvel þótt þess hafi ekki gerst þörf. Árið 2014 fékk Sjálfstæðisflokkur til dæmis hreinan meirihluta. Í stað þess að freista þess að mynda öfluga stjórnarandstöðu í þágu jafnræðishugsunar og velferðar ákváðu Vinstri græn að treysta völd Sjálfstæðisflokksins með auknum meirihluta.

Fyrir síðustu kosningar tjáðu fulltrúar Vinstri grænna kjósendum að þeir gengju óbundnir til kosninga. Önnur varð raunin. Þau segjast nú ganga óbundin til kosninga aftur. En sporin hræða. Sömu aðilar skipa efstu sæti á lista og erfitt að trúa öðru en að atkvæði greidd Vinstri grænum skili sér beint í stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur einkennt samstarf þessara flokka að Vinstri græn hafa gefið stefnumál sín eftir. Trúverðugleiki framboðsins er því nánast enginn.

Íbúahreyfingin vill rjúfa kyrrstöðuna sem einkennt hefur stjórnmál í Mosfellsbæ síðastliðin 16 ár. Það er lýðræðinu ekki hollt að sömu stjórnmálaöfl séu áratugum saman við stjórnvölinn. Þegar flokkar verða svo heimakærir að þeir aðgreini ekki lengur eigin hagsmuni frá hagmunum heildarinnar er komin þörf fyrir endurnýjun.

Við óskum eftir umboði ykkar á kjördag til að halda áfram að standa vörð um velferð og hagsmuni bæjarbúa. Kæru Mosfellingar setjið X við Í.

Pin It on Pinterest

Share This