Á vettvangi sveitarfélaga heyrist oft kvartað yfir því að verkefni sem tekin hafa verið yfir frá ríkinu séu dýrari í rekstri en til stóð. Á undanförnum vikum hef ég heyrt nokkrar skýringar á þessu.
- Kostnaður vegna lagabreytinga sé ekki metinn að verðleikum og rekstur verkefna s.s. málefni fatlaðra því dýrari en til stóð í upphafi;
- Sveitarfélögin hafi sjálf ekki verið nógu vel undirbúin og hafi haft misjafna burði til að taka yfir verkefni frá ríkinu;
- Tillitsleysi ríkisvaldsins sem kristallast í því að það heldur ekki gerða samninga fyrri ríkisstjórna sem aftur dregur úr mætti sveitarfélaga til að gera og standa við langtímaáætlanir í fjármálum;
- Almennt samráðs- og sambandsleysi ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að ráðstöfun fjár og fjármálastjórnun sameiginlegra verkefna á sviði velferðar-, samgöngu- og menntamála.
Þetta er ekki uppörvandi upptalning og heldur ekki tæmandi en ef marka má það sem nýverið kom fram á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðalfundi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ríkir ákveðið stjórnleysi í fjármálum þessara tveggja meginstoða samfélagsins vegna samskiptaleysis sem líklegt er að kosti þjóðina mikla fjármuni, – að því er virðist allsendis að óþörfu.
Sigrún Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar