Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi og leiðsögumaður, er í 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hún hefur verið bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ frá 2014. Sigrún hefur veitt meirihlutanum öflugt aðhald og beitt sér fyrir því að bæjarmál séu rædd fyrir opnum tjöldum í bæjarstjórn, frekar en á lokuðum fundum bæjarráðs og nefnda. Gegnsæi og greiður aðgangur kjörinna fulltrúa og íbúa að stjórnsýslunni, íbúaþátttaka og heilbrigð stjórnmálamenning eru hennar hjartans mál.
Önnur málefni sem Sigrún brennur fyrir eru skólamál en hún vill bæta starfsumhverfi kennara og nemanda í leik- og grunnskólum og tónlistarskólanum. Hún telur að heildræn samvinna á milli fagaðila í málefnum barna sé nauðsynleg.
Sigrúnu finnst að í Mosfellsbæ séu fjölmörg sóknarfæri á sviði félagsþjónustu, menningarstarfsemi, skipulagsvinnu, útivistar- og umhverfismála. Eitt brýnasta verkefni samtímans er þó að aflétta neyðarástandi í húsnæðismálum ungs fólks og efnaminni.
Sigrún stundaði nám í Þýskalandi, Belgíu og á Íslandi. Hún er með B.A. gráðu í heimspeki og lagði stund á nám í trúarbragðafræði, listasögu og fjölmiðlafræði. Hún hefur starfað á sviði menningar- og náttúruverndarmála, auk þess að leiðsegja erlendum ferðamönnum um landið. Hún er gift Eggerti B. Ólafssyni lögmanni og börn þeirra eru Páll Ragnar og Margrét Þórhildur. Sigrún á þrjú stjúpbörn og eitt barnabarn.
Sigrún sækist eftir umboði kjósenda til að beita sér áfram af fullum krafti fyrir velferð Mosfellinga.