Einkasjúkrahús var aftur til umræðu á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar í dag. Á fundi bæjarstjórnar 17. ágúst sl. hafði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gagnrýnt ákvörðun fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði um að úthluta huldumönnum lóð undir sjúkrahúsið án þess að afla nauðsynlegra upplýsinga um getu þeirra og hæfi til að ráða við slíkt verkefni. Frá athugasemdum Íbúahreyfingarinnar var greint í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Nú virðist sem fulltrúar S-lista hafi séð að sér og tillaga þeirra þess efnis að “ábyrgur aðili s.s. endurskoðandi bæjarins” verði fenginn til að kanna stöðu og fjárfestingasögu þeirra aðila sem hyggjast standa fyrir byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ var tekin fyrir á fundinum í morgun.
Bæjarstjóri hefur núþegar undirritað samninginn og telur Íbúahreyfingin að skaðinn sé því skeður, eins og fram kemur í eftirfarandi bókun:
“Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar furðar sig á að fulltrúi S-lista skuli á fundi bæjarráðs 21. júlí hafa gefið samþykki sitt fyrir úthlutun lóðar undir einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, án þess að fyrir ráðinu lægi áreiðanleikakönnun á hæfi og fjárhagslegum burðum umsækjenda. Tillaga um að kanna stöðu þeirra og fjárfestingarsögu nú er of seint fram komin þar sem bæjarstjóri hefur núþegar gengið frá samningi um úthlutun lóðanna.
Íbúahreyfingin telur að skaðinn sé núþegar skeður og eðlilegasta framhald þessa máls að bæjarráð taki vinnubrögð sín við úthlutun lóða sveitarfélagsins til skoðunar.”