Kæru íbúar.
Öll höfum við fylgst með því sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu undanfarið með undrun og óbragð í munninum. Var þetta virkilega svona og er þetta virkilega svona enn? Hvað getum við gert til þess að breyta þessu?
Fyrir mér er ein af megin ástæðunum fyrir undangenginni atburðarás, sérhagsmunagæsla stjórnmálaflokka. Stjórnmálamanna sem með gjörðum eða aðgerðaleysi hafa unnið gegn almannahagsmunum til þess að verja sérhagsmuni lítilla hópa. Það hefur komið í ljós að stjórnvöld sögðu ósatt um óumflýjanlegt hrun bankanna, sem þau sjálf eiga stóra sök á. Þessi ósannindi hafa orsakað eignatjón hjá almenningi sem vart verður metið nema í þúsundum milljarða króna en þeir sem höfðu upplýsingarnar gátu lagfært sína stöðu. Í kjölfar bankahrunsins horfum við svo uppá að eigendur fyrirtækja sem höfðu keyrt þau í þrot fá að halda þeim en skuldir felldar niður, skattastefnu sem dýpkar kreppuna engar lýðræðisumbætur, ekkert stjórnlagaþing, enn er ráðið og skipað í mikilvægar samninganefndir eftir flokkskírteinum án þess að huga að hæfni.
það hefur ekkert breyst!
Ég get ekki hugsað mér að styðja neinn af þeim flokkum sem höfðu boðað lista til bæjarstjórnar í Mosfellsbæ vegna tengsla þeirra við landsmálaflokka. Ég er í raun öskureiður út í þá og merki að svo er um fleiri. Mig langar að kjósa venjulega Mosfellinga í bæjarstjórn. Fólk sem hefur pólitískan landsmálaflokk hvergi í forgangsröðinni hjá sér, en um það var ekkert val. Þetta var í raun kveikjan að Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ. Margt af fólkinu á listum landsmálaflokkana er vænsta fólk sem ég mundi treysta fullkomlega til þess að þjóna bæjarbúum vel, en fyrir mér eru stjórnmálaflokkarnir sem það kýs að bjóða sig fram í óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir mitt atkvæði.
En eru flokkarnir ekki að breytast?
Ég sé engar augljósar breytingar aðrar en breytta orðræðu. Við lestur umsagnar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn Mosfellsbæjar skrifaðu undir um persónukjör og má sjá hér http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=102&dbnr=138&nefnd=a , er nokkuð ljóst að þeir ætla ekki að opna á vald fólksins. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ vill að íbúarnir fái að kjósa um þau mál sem þeir óska eftir að kjósa um. Í stærri málum sem ætla má að skipti íbúana verulegu máli ætti sjálfgefið að vera íbúakosning. Ég tel það hvorki flókið né kostnaðarsamt að setja upp rafrænt kerfi sem gæfi öllum íbúum kost á að nýta sér þetta vald. Mosfellsbær gæti verið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd að þessu leiti. Sum mál tækju eflaust lengri tíma, stjórnsýslan yrði að vera mun opnari og gagnsærri, en er ekki krókur betri en kelda og höfum við ekki lært lexíuna um að rasa ekki um ráð fram af því sem gerst hefur undanfarið?
Við hjá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ viljum aðskilja framkvæmdavaldið frá bæjarstjórninni að svo miklu leiti sem hægt er. Við viljum því ráða faglegan bæjarstjóra, við teljum öruggt að til þess þurfi hvorki samning um ofurlaun né dýran starfslokasamning, þess hefur aldrei þurft. Þetta er stjórnunarstarf eins og hvert annað og mikið af hæfu fólki sem getur sinnt því vel.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ gefur kjósendum Mosfellsbæjar val um að kjósa venjulega Mosfellinga sem hafa engra hagsmuna að gæta í landsmálaflokkum en vill gagnsæja stjórnsýslu og aukið lýðræði.
Jón Jósef Bjarnason
íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar