Íbúahreyfingin leggur áherslu á að fatlaðir einstaklingar fái alla þá samfélagsþjónustu sem þeir þurfa til að lifa mannsæmandi, sjálfstæðu og áhyggjulausu lífi. Fatlaðir eiga ekki að þurfa að upplifa þjónustu við sig sem ölmusu heldur á skipulag og innviðir samfélagsins að vera með þeim hætti að fatlaðir séu ekki stöðugt áminntir um fötlun sína. Samfélagið á einfaldlega að tryggja fötluðum jöfn tækifæri og fulla samfélagsþátttöku á við aðra.
Íbúahreyfingin vill leita samráðs við fatlaða um þau mál sem á þeim brenna. Galdurinn í pólitík Íbúahreyfingarinnar er yfirhöfuð samráð. Í þessum málaflokki er það sérstaklega brýnt þar sem fötlun er margvísleg og þarfirnar einstaklingsbundnar. Íbúahreyfingin mun leggja sitt af mörkum til að Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði fullgiltur og úrræði í málefnum fatlaðra löguð að honum.
Mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um almenn samskipti við fatlaða og er það ekki síst að þakka öflugri baráttu notenda þjónustunnar sem barist hafa fyrir auknu sjálfsforræði. Við í Íbúahreyfingunni teljum brýnt að vinna gegn fordómum í garð fatlaðra og munum leggja áherslu á það í okkar stjórnmálastarfi.
Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014.