mosoNýlega var ársskýrsla skólaskrifstofu Mosfellsbæjar kynnt í bæjarstjórn. Um er að ræða greinargott og efnismikið plagg nema hvað þar vantar upplýsingar um þær miklu áskoranir sem skólayfirvöld í sveitarfélaginu standa frammi fyrir. 

Undirrituð sá sig knúna til að gera athugasemd við þetta og nefndi í því sambandi eitt lítið dæmi um vandamál sem ekki er nefnt í skýrslunni en það eru óralangir biðlistar í píanónám í Listaskóla Mosfellsbæjar. Skortur á slíkum upplýsingum er gegnumgangandi í skýrslunni.
Nú er ársskýrslum almennt ætlað að gefa glögga mynd af rekstri og þeim vandamálum sem verið er að kljást við. Fyrir okkur bæjarfulltrúa er afar brýnt að ársskýrslan gefi raunsanna mynd. Við þurfum að fá að vita hvar skórinn kreppir. Eða hvernig eigum við annars að takast á við þá erfiðleika, litla og stóra, sem svo sannarlega er við að stríða í skólamálum hér í bæ?
En upplýsandi og raunsönn ársskýrsla er ekki bara mikilvæg fyrir bæjarfulltrúa, heldur líka þá íbúa sem áhuga hafa á að fylgast með og jafnvel blanda sér í umræðuna. Þegar dregin er upp glansmynd sem gefur til kynna að allt sé í himnalagi geta bæjaryfirvöld misst af því tækifæri að eiga gjöful skoðanaskipti við íbúa um skólamálin. Önnur afleiðing gæti verið trúnaðarbrestur sem litar samskiptin við sveitarfélagið.
Á fundinum örlaði á vilja D-lista til að skoða málið og vona ég svo sannarlega að af því verði.
Sigrún Pálsdóttir
bæjarfulltrúi
ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is

Pin It on Pinterest

Share This