Screen Shot 2015-01-16 at 10.01.07Hér má lesa lauslega samantekt á umræðum á íbúafundi í Reykjadal um deiliskipulag Þingvallavegar í Mosfellsdal 15. janúar sl. Fundurinn var haldinn af skipulagsyfirvöldum í Mosfellsbæ að ósk íbúa í þeim tilgangi að skýra ferlið og helstu óvissuþætti verkefnisins. Mikið fjölmenni var á fundinum og óvenjumargir kjörnir fulltrúar eins og formaður skipulagsnefndar, Bryndís Haraldsdóttir, benti á. Rafn Jónsson, félagi í íbúasamtökunum Víghóll, stjórnaði fundi af fagmennsku og röggsemi.

Skipulag
Fundurinn hófst á því að Finnur skipulagsfulltrúi sagði frá verklýsingu sem er fyrsta skref deiliskipulags skv. nýjum skipulagslögum. Vegurinn er stofnvegur í þjóðvegakerfi landsins og er talað um hann sem stofnbraut í nýju aðalskipulagi 2011 til 2030. Hugtakið stofnbraut hefur enga sérstaka merkingu og væri best að leiðrétta. Það hefur ekki áhrif á umfang vegarins að hann sé skilgreindur þannig. Vegurinn er í umsjá Vegagerðarinnar, ekki sveitarfélagsins. Við stofnvegi er 30 m helgunarsvæði sitt hvoru megin og þurfa hús að vera í minnst 50 m fjarlægð.

Hraðakstur og úrræði
Mikill meirihluti ökumanna keyrir of hratt um Dalinn en þar er 70 km hámarkshraði. Meðalökuhraði er um 78 km. Vegurinn eins og hann er er hættulegur vegna mikils umferðarhraða og hafa íbúar mestar áhyggjur af því. Töluvert er um að bílar fari útaf veginum. Mikilvægt er að fækka tenginum við veginn en þær eru 14. Íbúar lýstu undrun sinni á því hve svifasein skipulagsyfirvöld í Mosfellsbæ eru. Búið sé að vekja athygli á umferðarhraða í fjögur ár og ekkert gert í málinu.
Eftir stutta tölu Bryndísar formanns skipulagsnefndar gafst íbúum kostur á að spyrjast fyrir.
Spurt var um hvort ekki væri skynsamlegt að koma fyrir hraðahindrunum og því svarað til að það tíðkaðist ekki á stofnvegum Vegagerðarinnar. Einnig hvort ekki væri rétt að koma upp hraðamyndavélum  sitt hvoru megin við veginn til að draga úr ökuhraða. Vegagerðin sagði að það kæmi til greina en væri dýrt. Kostar 10 milljónir, auk rekstrarkostnaðar en á móti komi þó tekjur.

Lega vegarins
Screen Shot 2015-01-16 at 10.03.49Fram kom tillaga um að færa veginn inn á friðað svæði við Grænuborg, þ.e. um 5-600 m til austurs í grennd við Gljúfrastein. Einnig að nota gamla vegstæði Þingvallavegar sem liggur um Seljadal, austan við Grímmannsfell.
Sögulegur fróðleikur:
Gamli Þingvallavegurinn
Seint á 19. öld var lagður vagnvegur yfir endilanga Mosfellsheiði, frá Geithálsi að Almannagjá. Var þetta geysimikið mannvirki á sinni tíð, breiður vegur með vatnsræsum og brúm. Fyrst var ekið á bifreið eftir veginum árið 1913 en reyndar var vegurinn nýttur skemur en efni stóðu til því fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930 var lagður bílvegur austur Mosfellsheiði á svipuðum slóðum og ak leiðin liggur nú. Leysti sá vegur vagnveginn af hólmi en sá síðarnefndi hlaut nafngiftina Gamli Þingvallavegurinn, stundum ranglega nefndur Kóngsvegur. Við veginn er að finna rústir af sæluhúsi sem hlaðið var úr tilhöggnu grágrýti um 1900.

Innskot SP: Spurning hvort það samræmist fyrirætlunum um Sundabraut eða kannski orðið til þess að ekki þyrfti að leggja hana. Umferð um Mosfellsbæ myndi minnka til muna.

Strætó til Þingvalla
Á fundinum kom fram sú snilldarhugmynd að taka upp strætóferðir til Þingvalla. Það myndi augljóslega draga úr einkabílaumferð um Dalinn.
Innskot SP: Huga þarf að aðstöðuleysi fyrir farþega á Þingvöllum.

Hringtorg og stígar
Fram komu fyrirspurnir um hringtorg og sú hugmynd uppi að hafa eitt slíkt í grennd við Gljúfrastein þar sem aðkoma þar er erfið. Einnig á fleiri stöðum neðar í Dalnum. Mikilvægt er að loka eins mörgum tengingum og hægt er en það útheimtir að endurskoða þarf innansveitarvegi. Íbúar lögðu einnig mikla áherslu á úrbætur í tengslum við göngu- og hjólastíga en einn aðal stígurinn liggur meðfram skurði sem er hættulegt börnum.
Innskot SP: Koma þyrfti fyrir hjólagrindum við strætóbiðskýli.

Umfang stofnvegar
Vegagerðin eyddi öllum vangaveltum um að leggja ætti fjögurra akreina veg a.m.k. næstu 20-30 árin en sagði að til greina kæmi að aðskilja akreinarnar og kallar það á einhverja breikkun. Íbúi benti á að það væri stuttur tími. Mikilvægt væri að fyrir lægju framtíðaráætlanir sem gerðu ráð fyrir áframhaldandi kósý stemmningu í Mosfellsdal.
Spurt var um hvort Vegagerðin hefði í hyggju að grafa niður á fast og bent á að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir landbúnaðinn þar sem vatnabúskapur í jarðvegi væri samtengdur. Jónas sagði að það væri ekki á döfinni.

Framtíðaráætlanir um Þingvallaveg

Spurt var um hverjar framtíðaráætlanir fyrir Þingvallaveg væru og sagði Vegagerðin að vegurinn á Þingvöllum þarfnaðist úrbóta. Ástand hans væri slæmt (vegna umferðaraukningar sem rekja má til nýs vegar yfir Lyngdalsheiði). Hámarkshraði er 50 km og miðast viðhald við það.
Innskot SP: Landvernd kærði á sínum tíma vegalagningu yfir Lyngdalsheiði og tiltók í umsögn um skipulagið flest þau vandamál sem síðar hafa komið í ljós vegna umferðaraukningar.

Vatnsverndarsvæði
Ákveðin óvissa ríkir um vegstæði Þingvallavegar sem liggur um vatnsverndarsvæðið í Laxnesdýjum ofan við Gljúfrastein vegna mengunarhættu. Svæðið á að stækka skv. nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Bryndís bæjarfulltrúi sagði að ekki mætti leggja veg um brunn- og nærsvæði vatnsbólsins og best væri að færa veginn. Vegagerðin vilji hins vegar ekki greiða kostnaðinn. Íbúi benti á að í ljósi þessa væri furðulegt að til stæði að reisa víðáttumikið ferðaþjónustufyrirtæki á vatnsverndarsvæðinu.
Innskot SP: Dalurinn gæti verið háður vatni frá svæðinu vegna vatnsfrekrar landbúnaðarstarfsemi og því ekki einfalt mál að hætta notkun vatns þaðan. Tek undir áhyggjur íbúans.

Umferðarhávaði
Að lokum var rætt um hávaða frá bílaumferð í Mosfellsdal en hann er mikill vegna bergmáls á milli fellanna. Íbúar hafa óskað eftir hávaðamælingu hjá bæjaryfirvöldum en ekkert gerst. Íbúi benti réttilega á að efnið í veginum hefði áhrif á hljóðmengun frá honum.

Aðgerðir óskast
Á fundinum lýstu íbúar undrun sinni á því hve svifasein skipulagsyfirvöld í Mosfellsbæ hafi verið. Búið sé að vekja athygli á hættuástandi vegna umferðarhraða í fjögur ár og ekkert gerst.

Frestur til að senda inn athugasemdir við verkefnislýsingu er til 19. febrúar.

Ég óska íbúum í Mosfellsdal góðs gengis og vona að þessi samantekt komi að gagni. Innskot SP eru vangaveltur sem komu upp í huga undirritaðrar á fundinum.

Fyrri myndin er af  gömlum vegslóðum austan Mosfellsbæjar og sú síðari af Seljadalsvegi. Sjá nánar: Reykjavíkurvegir frá upphafi til nútíma

Sigrún Pálsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This