Nýlega birti Félagsvísindastofnun skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka í Mosfellsbæ. Könnunin fór af stað áður en Íbúahreyfingin kynnti sitt framboð og gefa niðurstöður sem sýndu um 7% fylgi því ekki rétta mynd. Í síðustu kosningum fékk Íbúahreyfingin 15,2% atkvæða og varð þar með annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ. Þann titil ætlum við svo sannarlega að verja og gott betur í kosningunum nk. laugardag.
Undanfarnar vikur hefur Íbúahreyfingin unnið að því hörðum höndum að kynna áherslur sínar og verkefni sl. fjögur ár fyrir kjósendum. Þeir sem standa að framboðinu skiluðu góðu dagsverki á kjörtímabilinu og stóðu við kosningaloforð sín, þ.e. að koma á framfæri áherslum sínum í lýðræðis- og gegnsæismálum við hvert tækifæri á vettvangi bæjarmála. Það sem skiptir mestu máli er að láta verkin tala. Stefnumótun er ágæt út af fyrir sig en það vill brenna við hjá stjórnmálaflokkum í Mosfellsbæ að hún sé bara í orði en ekki á borði og þannig vinnubrögðum viljum við breyta.
Sýn Íbúahreyfingarinnar á bæjarmálin er skýr. Fyrst þarf að búa til réttu innviðina til að festa lýðræðið í sessi, síðan að byggja upp á grundvelli langtímasjónarmiða í samráði við íbúa. Í forgrunni allrar vinnu er mannvirðing, réttlæti, hagkvæmni, heiðarleiki og umhyggja fyrir náttúruauðlindum sem þjónar velferð bæjarbúa og reyndar mannkynsins alls. Við í Íbúahreyfingunni leggjum sömuleiðis megináherslu á opið, nútímalegt bæjarfélag þar sem allt er upp á borði því aðeins þannig er hægt að tryggja jafnræði allra íbúa og skynsamlega ráðstöfun fjár.
Íbúahreyfingin er óháð íbúaframboð. Við lofum ekki 1000 störfum eða stórum köstulum í aðdraganda kosninga en kjósendur geta treyst því að við munum vinna áfram af alúð og trúmennsku á vettvangi bæjarmála á komandi kjörtímabili.
Íbúahreyfingin hvetur stuðningsmenn til að fjölmenna á kjörstað og tryggja með því helstu þjóðþrifamálum samtímans trausta og vinnusama talsmenn á vettvangi bæjarmála í Mosfellsbæ.
Sérhvert atkvæði getur ráðið úrslitum — það eru ekki ýkjur. 🙂
Setjum X við M á kjördag.

Sigrún H Pálsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This