screen-shot-2016-12-03-at-14-47-03Tillaga íbúahreyfingarinnar um að framvegis verði framboðum í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu heimilt að tilnefnda áheyrnarfulltrúa í fulltrúaráð Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) var samþykkt á aðalfundi SSH í gær. Mikið pólitískt starf fer fram í nafni sveitarfélaganna innan samtakanna sem voru stofnuð sem samstarfsvettvangur um skipulag í Hlégarði í Mosfellssveit árið 1976. Íbúahreyfingin telur eðlilegt og í anda  löggjafans (50. gr. sveitarstjórnarlaga) að framboð sem hlotið hafa kosningu í sveitarstjórn hafi öll beinan og jafnan aðgang að málefnastarfi, í þessu tilviki þessum mikilvæga samstarfsvettvangi sveitarstjórnanna.

Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ lýsti yfir stuðningi við hana á fundinum og má segja að það hafi verið óvæntur glaðningum.

Rökin sem bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, Sigrún H Pálsdóttir, færði fyrir tillögunni voru þessi:  “Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að sjöttu grein samþykkta Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði breytt á þann veg að framvegis verði framboðum sem náð hafa kjöri í sveitarstjórn heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í fulltrúaráð SSH.

Tillagan sækir fyrirmynd sína í 50. gr. sveitarstjórnarlaga sem heimilar framboðum, sem ekki hafa fengið nægilegt magn atkvæða til að fá fulltrúa kjörinn í bæjarráð og aðrar nefndir, að tilnefnda áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt en þó ekki atkvæðisrétt. Tilgangurinn með ákvæðinu er að veita öllum framboðum sem ná inn manni í sveitarstjórn jafnan aðgang að því starfi sem fram fer á vettvangi sveitarstjórna, þ.e. jöfn tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, nýta málfrelsið og tillöguréttinn. Framboðin eru jú að því leyti öll jöfn fyrir lögum.

Tillagan sem nú liggur fyrir aðalfundi SSH snýst því um að veita öllum framboðum sem náð hafa kosningu jafnan aðgang að málefnastarfinu og þar með efla lýðræðið, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu heimila áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Öll nema eitt (Garðabær) heimila áheyrnarfulltrúa í nefndum. SSH er því eftirbátur flestra aðildarfélaga sinna í því að nýta sér þau tæki sem löggjafinn hefur hannað til að þróa starfsaðferðir sínar í lýðræðisátt.

En tillagan snýst líka um jafnan rétt til upplýsinga. Sá þáttur er ekki síður mikilvægur. Og síðast en ekki síst jafnan rétt kjósenda, því eins og staðan er í dag, fer það ekki alltaf eftir magni atkvæða hvort framboð fá fulltrúa kjörinn í nefndir og ráð, heldur hvort þau eiga aðild að meirihlutasamstarfi. Samkvæmt því hafa atkvæði því mismunandi vægi. Löggjafinn hefur þróað tæki til að jafna það með ákvæði um áheyrnarfulltrúa. Með því að samþykkja breytingatillöguna taka Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu því af allan vafa um það að þau séu lýðræðislegur vettvangur og það er ekki lítið.”

Hér er aðeins um gleðilegt hænuskref í lýðræðisátt að ræða því ákvæðið á aðeins við um fulltrúaráð SSH, þ.e. ekki svæðisskipulagsnefnd og byggðasamlögin.

Breyting á 6. gr. um fulltrúaráð:

Óbreyttur texti: Eingöngu aðalmenn í sveitarstjórn eru kjörgengir í fulltrúaráðið. Fulltrúar sveitarfélaganna sem skipaðir eru samkvæmt framangreindu hafa atkvæðisrétt á fundum fulltrúaráðsins.

Viðbótin: Framboði sem á kjörinn fulltrúa í sveitarstjórn en á ekki kjörinn fulltrúa í fulltrúaráðinu skv. framangreindu er þó heimilt að tilnefna einn fulltrúa til setu í fulltrúaráðinu með málfrelsi og tillögurétt.

Sigrún H Pálsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This