Nú eru ný hverfi óðum að rísa í Mosfellsbæ og íbúum að fjölga samhliða því. Skuggi fellur þó á gleðina því engir strætisvagnar eru á næsta leiti í hverfinu undir Helgafelli, í Leirvogstungu og víðar. Þótt uppbygging hverfanna sé vel á veg komin hafa enn engar áætlanir verið gerðar um framtíðarfyrirkomulag almenningssamgangna. Ef faglega hefði verið að málum staðið hefðu þær auðvitað átt að vera hluti af upphaflegri skipulagsvinnu og liggja fyrir hvernig sveitarfélagið ætlaði sér að standa að þeim þegar byrjað var að byggja . Aðalskipulag Mosfellsbæjar og vefur sveitarfélagsins eru til vitnis um að stefnumótun á sviði almenningssamgangna er ekki forgangsatriði í Mosfellsbæ, heldur miklu frekar eitthvað sem bara gerist ef yfirhöfuð.
Á samskiptamiðlum hefur íbúum verið heitt í hamsi út af þessu hallæri og er nú svo komið að bæjarráð hefur samþykkt þá tillögu skipulagsnefndar að skoða þessi mál.
Þess má geta að á síðasta kjörtímabili lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar til í skipulagsnefnd að óskað yrði eftir því við bæjarstjórn að hún fengi fagaðilann Strætó bs. til að leggja drög að leiðakerfi og kostnaðargreina það verkefni að koma á strætisvagnasamgöngum innanbæjar í Mosfellsbæ. Tlllagan var samþykkt en engin alvarleg tilraun gerð til að komast til botns í því máli. Óánægja íbúa og söluaðila fasteigna hefur nú orðið til þess að áhugi fulltrúa D- og V-lista virðist eitthvað vera að glæðast og er það vel.
Í dag er brýnast að tengja nýju hverfin við þá strætisvagna sem ganga í Mosfellsbæ. Safnvagnakerfi innanbæjar með tengingu við borgarlínu er þó framtíðin og mikilvægt að hefja strax vinnu við almenningssamgönguáætlun þar að lútandi samhliða því að finna lausn á vandanum nú.
Sjá fundargerð bæjarráðs mál 4, 17. ágúst 2017.