Fólkið er of fyrirferðarmikið til að fallaÍbúahreyfingin í Mosfellsbæ lýsir fullum stuðningi við aðgerðir Dögunar, IMMI, Pírata, Radda fólksins, SaNS og Stjórnarskrárfélagsins í stjórnarskrármálinu:
„Við heitum á meiri hluta Alþingis að virða afdráttarlausan vilja kjósenda í stjórnarskrármálinu, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn. Lýðræðisríki byggja á þeirri grundvallarforsendu að allt ríkisvald sé sprottið frá þjóðinni, það er þjóðin sem er fullvalda.
Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn samkvæmt vestrænum lýðræðishugmyndum þótt núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins endurspegli það ekki nægilega vel. Þjóðaratkvæðagreiðslur sem Alþingi boðar til eru ráðgefandi, en aðeins af lögformlegum ástæðum.
Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ávallt pólitískt og siðferðilega bindandi. Alþingi hefur enda aldrei gengið gegn vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Dagurinn sem það gerðist yrði svartur dagur í sögu Alþingis. Stjórnarskrárferlið, sem sett var af stað í kjölfar hrunsins, hefur vakið verðskuldaða athygli víða um lönd. Tugþúsundir Íslendinga hafa lagt sitt af mörkum.
Við nýja og endurskoðaða stjórnarskrá eru bundnar dýrmætar vonir um heilbrigðara samfélag, og það veltur á meiri hluta Alþingis hvort þær vonir megi rætast.
Vilji þjóðarinnar liggur fyrir óvenju skýr. Alþingi ber að virða þann vilja og láta hann ná fram að ganga.“
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hvetur fólk til þess að mæta á kröfufundi um þetta mikilvæga málefni á Austurvelli næstu laugardaga.

Pin It on Pinterest

Share This