Lítið hefur farið fyrir umræðu um þau náttúruverðmæti og útivistarsvæði sem í húfi eru í tengslum við lagningu Sundabrautar. Samkvæmt þeim tillögum sem haldið hefur verið á lofti á í sparnaðarskyni að leggja hraðbrautina á landfyllingum með lítilli brú yfir Leiruvoginn í Mosfellsbæ, frá Geldinganesi yfir í Gunnunes. Í ljósi náttúruverndarlaga, alþjóðlegra skuldbindinga og þýðingar svæðisins fyrir Mosfellinga vekur furðu að sú útfærsla skuli tekinn fram yfir aðra valkosti án nokkurs fyrirvara um verndargildi og útivistarhagsmuni.
Það er ástæða fyrir því að Vesturlandsvegurinn liggur þar sem hann er. Þegar aðalskipulag Mosfellsbæjar var upphaflega unnið átti með því að hlífa sjávarsíðunni.
Umhverfismat ekki klárað
Umhverfismat fyrir þann áfanga Sundabrautar sem snýr að Leiruvogi og Mosfellsbæ hefur aldrei verið klárað. Frummatsskýrsla fyrir alla framkvæmdina er heldur ekki tilbúin. Hún er í athugun skv. vef Skipulagsstofnunar en þar fengust þær upplýsingar að engin vinna væri í gangi í tengslum við verkefnið hjá þeim.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra er þrátt fyrir skort á þessum veigamiklu upplýsingum og tilheyrandi samráðsferli þó byrjaður að reka áróður fyrir þessari útfærslu þar sem kostnaður við hana er minnstur í krónum talið. Í ljósi bersýnilegra náttúruverndar- og útivistarhagsmuna íbúa við strandlengjuna sætir fyrirvaraleysi ráðherrans furðu. Sundabraut er risavaxið verkefni og án nokkurs vafa stærsta umhverfisverndarmál síðari tíma á höfuðborgarsvæðinu. Það ætti því að vera í fyrirrúmi að vanda til verka.
Aðstæður í Leiruvogi breyst
Sundabraut hefur lengi verið í pípunum og er henni ætlað að greiða leið út úr höfuðborginni og eru það gild rök. Í lok síðustu aldar hófst síðan undirbúningur að lagningunni. Á þeim tíma voru vistfræðingar í Háskóla Íslands fengnir til að taka saman rannsóknir á lífríki Leiruvogs og úr varð stutt samantekt. Megin efni hennar eru rannsóknir sem gerðar voru á 20-30 ára tímabili á seinni hluta 20. aldar. Í samantektinni (1999) kom m.a. fram að vistkerfi Leiruvogs hefði lengi verið undir miklu álagi vegna þess að öllu skólpi frá Mosfellsbæ var veitt óhreinsuðu í voginn.
Á þessu varð þó breyting 2004-2006 þegar skolplagnir Mosfellinga voru tengdar við dælustöð sem tengist fráveitu Reykjavíkurborgar. 15 árum síðar eru því allt aðrar vistfræðilegar forsendur en þær sem uppi voru á rannsóknartímanum og því ekki hægt að byggja mat á náttúruverndarhagmunum á þeim.
Aðrar rannsóknir
Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hefur reglulega gefið út skýrslur um mengun í voginum en einnig í Varmá og Köldukvísl sem báðar renna í Leiruvog. Þessar mælingar staðfesta að mikil breyting til batnaðar hafi orðið á en enn má þó gera betur, sérstaklega hvað viðkemur Varmá.
Staðbundnar rannsóknir á fuglalífi og fiskgengd við ósana hafa líka verið gerðar í tengslum við framkvæmdir, s.s. lagningu Tunguvegar, sem lagður var frá Skeiðholti yfir ósasvæði Varmár og Köldukvíslar í Leirvogstungu. Niðurstöður þeirra gáfu sterklega til kynna að lífríkið við Leiruvog sé bæði dýrmætt og fjölskrúðugt.
Engin heildstæð rannsókn hefur verið gerð á lífríki Leiruvogs en það hlýtur að vera forsenda þess að unnið sé umhverfismat fyrir framkvæmd sem líkleg er til að hafa mikil og skaðleg umhverfisáhrif. Ýmislegt er þó almennt vitað um lífríkið, s.s. að leirur hafa stóru hlutverki að gegna í bindingu gróðurhúsalofttegunda og fæðuöflun fugla. Verndargildi þeirra er því mjög hátt.
Leirur grundvöllur fæðuöflunar fugla og ‘stórvirkir kolefnissvelgir’
Í upplýsandi grein sem vistfræðingurinn Tómas G. Gunnarsson skrifaði undir yfirskriftinni „Frá kennslu að kolefnisbindingu” og birti í Morgunblaðinu 2007 er fjallað um leirur og mikilvægi þeirra fyrir lífríkið.
En gefum honum orðið: „Leirur eru eitt mikilvægasta búsvæði margra fuglategunda sem sækja í mergð hryggleysingja, einkum orma, smávaxin skeldýr og mýflugulirfur. Þéttleiki fugla á leirum er með því mesta sem gerist, miðað við önnur búsvæði, en miklar árstíðasveiflur eru í fjölda. Flestir fuglar fara um á fartíma vor og haust og á sumum leirum er lítið að gerast fyrir utan þennan mikilvæga tíma.”
Og Tómas heldur áfram: „Leirur eru ekki bara mikilvægar fyrir þær lífverur sem dvelja á og í þeim, því þær eru líka stórvirkir kolefnissvelgir. Þær binda gróðurhúsalofttegundir og binding á flatareiningu er mikil. Leirur eru það sjaldgæfar og mikilvægar að forðast ætti í lengstu lög að eyðileggja meira af þeim en þegar hefur verið gert.”
Rúsínan í pylsuendanum: „Það að leirur og þéttbýli myndast oft á sömu stöðunum þýðir að árekstrar eru tíðir. Landfyllingar virðast freista, og þverun víkna og voga með vegagerð hefur spillt mörgum leirum. Á höfuðborgarsvæðinu einu hefur mörgum af frjósömustu leirum landsins verið spillt. Leiru Elliðavogs var spillt með uppfyllingu sem er hundaklósett og kallast í daglegu tali Geirsnef. Hvaleyrarlón í Hafnarfirði hefur mátt þola þrengingar úr öllum áttum og eftir situr lítill blettur. Gufunesvík var fyllt af sorpi og Arnarnesvogur er nær horfinn.”
Það fer því ekki á milli mála að sú útfærsla að leggja Sundabraut á landfyllingum mun ógna náttúrulegu lífríki Leiruvogs. Skaðsemin er óumdeild meðal vistfræðinga og fórnarkostnaður því mikill, ef ekki með öllu óásættanlegur. Afköstin við að binda gróðurhúsalofttegundir ættu á tímum loftslagsbreytinga ein og sér að nægja stjórnvöldum til að staldra við.
‘Heilbrigð náttúra fyrir heilbrigða þjóð’
Í hinum vestræna heimi hefur á undanförnum áratugum orðið mikil vitundarvakning í umhverfismálum. Innan ESB er til dæmis ekki lengur talið ásættanlegt að fara út í stórfelldar og skaðlegar framkvæmdir í náttúrunni nema með fulltingi stofnana á sviði náttúruverndar og sérfræðinga sem búa yfir faglegri þekkingu á vistkerfunum sem um ræðir.
Aðgengi að útivistarsvæðum í þéttbýli, góð heilsa og vellíðan eru í því sambandi metin til mikilla verðmæta. Skammtímahagsmunir eins og kostnaður á framkvæmdatíma ráða því ekki lengur úrslitum þegar teknar eru ákvarðanir um verkefni sem mögulega spilla þessum gæðum.
Ýmislegt hefur verið gert til að festa í sessi fagleg vinnubrögð og þar skipta máli alþjóðlegir samningar eins og Bernarsamningurinn.
Íslendingar fullgiltu Bernarsamninginn sem er samningur um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu árið 1993. Samkvæmt ákvæðum hans erum við beinlínis alþjóðlega skuldbundin til að vernda Leiruvoginn.
Leirurnar iða af fuglalífi og eru einkar mikilvægur viðkomustaður farfugla sem eiga líf sitt undir því að geta sótt sér næringu á leirunum. Lönd heims þurfa vegna flökkueðlis margra fuglategunda að vera í alþjóðlegu samstarfi um verndun fugla og búsvæða þeirra. Við berum t.d. ábyrgð á að margæsin geti hvílt sig og nestað á leirunum fyrir flugið yfir kaldan og gróðursnauðan Grænlandsjökul til Kanada.
Leirurnar gegna auk þess því veigamikla hlutverki að tryggja þeim fuglategundum sem ekki lifa við sjóinn fæðu þegar snjór þekur jörð.
Árið 2019 átti Bernarsamningurinn 40 ára afmæli og að því tilefni var vakin athygli á markmiðum hans með slagorðinu „Heilbrigð náttúra fyrir heilbrigða Evrópubúa”. Með því var undirstrikað að hagsmunir manns og náttúru fara saman.
Leiruvogurinn er auk þess skilgreindur sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Sérstök vistkerfi eins og leirur og sjávarfitjar njóta líka sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga.
Leirurnar eru því bæði með belti og axlabönd þegar litið er til alþjóðlegra skuldbindinga og íslenskra laga.
Eða svo skyldum við ætla. Raunin er sú að stjórnvöld láta sig vistfræðilega þáttinn litlu varða. Það virðist eiga að nota gömlu ‘góðu’ aðferðafræðina og kýla á’etta.
Öll náttúruverndarsvæði í Mosfellsbæ með tengingu við Leiruvog
Öll friðlýst náttúruvætti og svæði á náttúruminjaskrá í Mosfellsbæ eru með beina tengingu við Leiruvog. Það má segja að hann sé bæði upphaf og endir verndarsvæðanna því fiskurinn leitar þaðan upp í árnar. Fyrir vatnsföllin sem renna um farvegi, fossa og flúðir í Mosfellsbæ er vogurinn aftur á móti viðtakinn. Sú hætta er raunveruleg að framburður ánna setjist smám saman fyrir í voginum ef af landfyllingu verður.
Leiruvogurinn sjálfur er á náttúruminjaskrá (nr. 131) og bíður því friðlýsingar. Náttúruverndarstofnun hefur hvatt til þess að það verði klárað. Allar ár í Mosfellsbæ renna í voginn, þ.e. Úlfarsá/Korpa, Varmá, Kaldakvísl/Suðurá og Leirvogsá. Ósar Varmár eru friðlýstir og áin sjálf á náttúruminjaskrá. Hinar árnar eru ýmist á náttúruminjaskrá og/eða njóta hverfisverndar. Í ánum eru síðan fossar sem ýmist eru friðlýstir eða á náttúruminjaskrá.
Það eru því stórkostlegir náttúruverndarhagsmunir í húfi fyrir Mosfellinga. Öll friðlýst náttúruvætti og svæði á náttúruminjaskrá í sveitarfélaginu munu ‘lit sínum glata’. Ef litið er til þeirra verðmæta sem tapast við það að leggja hraðbrautina á brúm og landfyllingu eftir endilangri strandlengjunni er aðeins ein leið fær, sú að leggja Sundabraut í stokk.
Útivist og náttúra við Leiruvog
Þeir sem ganga, hjóla og stunda golf og hestamennsku sér til heilsubótar í Mosfellsbæ vita að Leiruvogur er einstök náttúruparadís. Leirurnar iða bókstaflega af lífi. Þar eru fuglar ýmist stakir eða í hópum sem stinga nefinu í sandinn eftir næringu, kvaka eða hvíla sig. Friðsældin og heilnæmt sjávarloftið eru engu lík við voginn. Hvílík andleg næring!
Útsýni við sundin blá
Það er fleira sem einkennir Leiruvog. Í heiðríkju er sólarlagið óvíða fallegra. Á góðviðrisdögum heldur útsýnið yfir Faxaflóa og til fjalla fólki föngnu. Jökullinn í fjarska og Esjan gera líka sitt. Á björtum síðkvöldum eiga Norðurljósin það til að stíga dans við Vetrarbrautina. Oftast yfir Faxaflóanum, fyrir mynni Hvalfjarðar. Hvílík lífsgæði að eiga kost á svo óviðjafnanlegu útsýni í þéttbýlinu!
Hraðbraut eftir strandlengjunni endilangri truflar þessa dýrmætu náttúruupplifun og við tekur umferðarhávaði, sjón-, loft- og ljósmengun. Heilsuefling og heimsmarkmið fara fyrir lítið. Mosfellsbær sem áunnið hefur sér sess sem heilsueflandi útivistar- og náttúruparadís umbreytist í hávaðasama eyju á milli tveggja stofnbrauta sem verða innan sjónmáls hvor frá annarri og kallast á.
Hvílíka skammsýni og sóun á samfélagslegum verðmætum er vart hægt að hugsa sér.
Sundabraut í stokk
Eins og sjá má verða lífsgæðin sem við í dag getum sótt í Leiruvog ekki mæld í peningum á framkvæmdatíma, heldur í þeim ávinningi sem íbúar í ‘heilsueflandi’ samfélagi og heilbrigðiskerfið allt verða aðnjótandi takist að vernda þessi náttúruverðmæti. Fyrsta skrefið í þá átt ætti að vera að kanna af þunga og alvöru að leggja Sundabraut í stokk.
Lokaorð
Það vekur ugg að engin opinber umræða skuli hafa farið fram um skuggahliðar Sundabrautar. Í nýlegri kynningu starfshóps samgönguráðherra um Sundabraut er ekki minnst einu orði á náttúru- og útivistarhagsmuni, hvað þá áhrifin á heilsu og vellíðan. Rétt eins og sú stefna að komast með bíl á sem skjótastan hátt á milli A og B sé öllu öðru yfirsterkari.
Göngu- og hjólastígur meðfram hraðbrautinni er á teikniborðinu. En til hvers? Hraðbraut er ekki það umhverfi sem fólk sækist eftir til útivistar.
Stöldrum því við. Á höfuðborgarsvæðinu búa 2/3 hlutar þjóðarinnar. Það þjónar langtímahagsmunum fólksins sem þar býr að vanda til verka. Ekkert hefur reynst okkur jafn dýrkeypt í skipulagsmálum og flýtimeðferðir. Er ekki tímabært að segja þeim kafla í Íslandssögunni lokið?
Sigrún H Pálsdóttir, leiðsögumaður og fyrrum bæjarfulltrúi.
Greinin birtist í Kjarnanum 1. apríl sl.