Fyrir síðustu kosningar tók ég þátt í stofnun Íbúahreyfingarinnar þar sem mér fannst vera þörf á breytingum, en ég gat ekki hugsað mér að styðja neinn af fjórflokkunum. Ég íhugaði það lengi vel að bjóða mig fram, af því að ég vildi hafa áhrif á mitt umhverfi og hvernig hlutunum er hagað hér í bænum, þó að ég hafi hvorki reynslu af né miklar mætur á pólitísku þrasi. Á Íslandi virðast stjórnmál nefnilega snúast um andstæðinga, fólki er stillt upp í minnihluta og meirihluta. Ef ég hefði boðið mig fram væri ég orðin andstæðingur fólks sem ég er sammála um margt en ósammála í öðru.
Eftir kosningasigur Íbúahreyfingarinnar, þar sem við fengum næstmesta fylgi allra framboða í Mosfellsbæ og einn mann inn í bæjarstjórn, var auglýst eftir fólki til að starfa í nefndum bæjarins og ákvað ég sækjast eftir að starfa í nefnd. Ég sótti um að vera fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í byggingar- og skipulagsnefnd. Þar hef ég nú starfað í eitt ár og nokkra mánuði.
Starfið í nefndinni hefur hefur verið athyglisvert og ekki fæ ég séð að afstaða fólk þar fari eftir því hvort það tilheyrir minnihluta eða meirihluta. Yfirleitt eru nefndarmenn nokkuð sammála um málefnin og úrlausn þeirra. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem sveitarstjórnarmál hafa yfirleitt lítið að gera með stefnuskrár landsmálaflokka.
En hvers vegna er ég að skrifa þetta? Jú vegna þess, að ég vil hvetja Mosfellinga til að taka þátt og hafa áhrif í bæjarfélaginu. Með þátttöku er hægt að breyta stjórnmálunum. Líka gömlu flokkunum! Þátttaka getur til dæmis falist í mæta á hina ýmsu fundi sem haldnir eru bæði á vegum bæjarins og flokkanna sjálfra eða með ýmsum öðrum leiðum.
Í búsáhaldabyltingunni var krafan um að nýtt fólk tæki við af atvinnupólitíkusum hávær. Það verður aldrei ef engin gefur sig fram.
Íbúahreyfingin er enn í mótun og þar er pláss fyrir þig og þínar skoðanir ef þú vilt vinna að gagnsærri og lýðræðislegri stjórnsýslu.
Jóhannes Bjarni Eðvarðsson